Home / Fréttir / Áróðursmeistarar Kremlar spá hörmungum tapist stríðið

Áróðursmeistarar Kremlar spá hörmungum tapist stríðið

Vladimir Pútin heiðrar Margaritu Simonian árið 2019.

Óvenjulegt er að í ríkissjónvarpsstöðinni Rossija-1 sem stjórnað er frá Kreml heyrist annað en það sem Kremlverjar vilja heyra. Mánudaginn 28. nóvember gerðist það þó að alkunnur málsvari Kremlverja, þáttastjórnandinn vinsæli Vladimir Soloviev hóf sjálfur máls á því hvað kynni að gerast ef Rússar færu halloka í Úkraínu. „Það yrði hörmulegt áfall fyrir land okkar. Það er óhugsandi. Við megum ekki tapa stríðinu,“ sagði gestur þáttarins, Margarita Simonian, aðalritstjóri sjónvarpsstöðvarinnar Russia Today (RT).

„Að rafmagnið sé tekið af einhverju hverfi í Kyív breytir ekki hve hörmulega óbærilegt það yrði fyrir þjóð okkar ef við töpuðum, það er óhugsandi, við getum ekki tapað,“ sagði hún í þýðingu frönsku sjónvarpsstöðvarinnar BFMTV og blaðsins Libre Belgique.

„[Úkraínumenn] búa sig undir að taka Krím okkar. Þá gerum við það eina sem við getum gert í þeirri stöðu: að sprengja þá í loft upp,“ sagði ritstjóri RT, sú sjónvarpsstöð Kremlverja var bönnuð í Evrópu strax og Rússar réðust inn í Úkraínu vegna áróðursins sem þar er fluttur.

„Rússar kasta ekki sprengjum að gamni sínu. Guð veit að þetta er ekki það sem við viljum. Enginn vill þetta. Og ég veit að ríkisstjórn okkar vill þetta ekki heldur,“ fullyrti hún.

Simonian minntist síðan á ótta ýmissa herforingja sem, því miður að hennar mati, óttuðust afskipti dómara ef Úkraínumenn sigruðu. Gaf hún lítið fyrir þá hræðslu.

„Því miður þekki ég marga sem hugsa á þennan veg. Þar á meðal menn í háum stöðum. Þeir eru hræddir og þora ekki að tala hreint út af ótta við hvað þeir kynnu að segja þarna hinum megin“ og vísaði hún þá til Alþjóðasakamáladómstólsins í Haag þar sem dæmt er um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

„Ég gef ekkert fyrir hvað þeir hugsa þarna hinum meginn. Þeir sem eru hræddir við Haag ættu frekar að vera hræddir við að tapa stríðinu, að verða niðurlægðir og svíkja þjóð sína,“ sagði ritstjórinn.

Vladimir Soloviev þáttarstjórnandi tók þá af henni orðið til að ljúka samtalinu og dró ekkert undan þegar hann sagði: „Haag verður ekki til ef þetta gerist. Það verður alls ekkert lengur. Heimurinn breytist allur í ösku.“

 

Heimild Le Figaro – 30. nóv. 2022

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …