Home / Fréttir / Áróðursbókstafnum Z dreift til stuðnings Úkraínustríðinu

Áróðursbókstafnum Z dreift til stuðnings Úkraínustríðinu

Það vakti athygli þegar rússnesku skriðdrekarnir og bryndrekarnir voru sendir inn í Úkraínu að sumir þeirra voru merktir með bókstafnum Z. Bókstafurinn birtist einnig á áróðursefni frá Kreml og rússneska varnarmálaráðuneytinu. Nú sést hann einnig á götum rússneskra borga og bæja.

Mánudaginn 7. mars sagði frá því á norsku vefsíðunni Barents Observer að helgina áður hefðu baráttumenn hollir rússneskum stjórnvöldum dreift áróðurs- og límmiðum með bókstafnum Z í miðborg Múrmansk. Límdu sumir miðana á bíla sína.

Héraðsstjórinn í Múrmansk fagnaði dreifingu áróðursins og þakkaði þeim sem áttu hlut að máli. Hann sagði á samfélagsmiðlinum Telegram að með aðgerðinni væri stuðlað að friði.

Á Barents Observer er hins vegar bent á að bókstafurinn Z sé einnig tákn fyrir stríð. Undanfarnar vikur sé hann notaður til að lýsa yfir stuðningi við innrás í nágrannaríki Rússlands. Þá sé bókstafurinn greinilega líkur hakakrossi nazista.

Minnt er á að í ræðum sínum í tilefni af árásinni hafi Pútin sagt að fasistar og nazistar stjórnuðu Úkraínu og tilgangur herfarar Rússa væri að afmá nazisma í landinu.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að Z standi fyrir „za pobedij“ (til sigurs) eins og fyrir „za mir“ (fyrir frið) og „za nashikh“ (fyrir þjóð okkar) og meira.

Sagt er að margir Rússar skilji ekki merkinguna með bókstafnum enda sé Z rituð með latnesku letri en ekki kyrillísku.

Til að árétta stuðning sinn við hernaðinn í Úkraínu og í því skyni að ýta undir þjóðerniskennd meðal Rússa nota nú ýmsir rússneskir frammámenn Z til að hvetja fólk til dáða.

Dmitríj Rogozin, fyrrverandi varaforsætisráðherra, núverandi yfirmaður rússnesku geimstofnunarinnar, breytti til dæmis rithætti á nafni sínu á Telegram–síðu sinni í RogoZin. Þá er sagt að stjórnandi Kuzbass-héraðs skrifi nafn héraðsins nú: KuZbass með latneskri Z.

Bókstafurinn Z er ekki eini latneski stafurinn sem rússneski herinn notar því að þar er bókstafnum V einnig haldið á loft. V er sagt standa fyrir „Velitstjie“ (mikilleika), „Vpered“ (áfram), „Vprave“ (að hafa rétt fyrir sér) og meira.

V er einnig sigurtákn.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …