
Armenska þingið kaus andófsmanninn Nikol Pashinian til að gegna embætti forsætisráðherra á fundi sínum þriðjudaginn 8. maí. Hann hefur í nokkrar vikur beitt sér fyrir mótmælum á götum úti víða um Armeníu.
Með því að kjósa Pashinian batt þingið enda á valdaferil Serzh Sargsyans, fyrrverandi forseta, sem stefndi að því að verða forsætisráðherra eftir að hafa setið tvö kjörtímabil sem forseti. Atkvæði á þingi féllu 59 gegn 42 Pashinian í vil.
Hann var eini frambjóðandinn í embættið en í fyrri viku fékk hann 45 atkvæði þingmanna en þurfti 53 til að ná kjöri.
Í síðari kosningunni snerist nokkrum þingmönnum Lýðveldisflokksins, flokks Sargsyans, hugur og studdu þeir Pashinian. Lýðveldisflokkurinn er í meirihluta á þingi.
Þúsundir stuðningsmanna Pashinians fögnuðu á Lýðveldistorginu í Jerevan, höfuðborg Armeníu, eftir að kjöri hans var lýst. Með baráttu sinni á götum úti hafði þeim tekist að knýja fram stjórnarskipti í landinu.
Stjórnarskrá Armeníu mælir fyrir um að enginn geti setið lengur í embætti forseta lýðveldisins en 10 ár. Sargsyan fyllti þennan tímaramma í apríl 2018 og sóttist þá eftir að verða forsætisráðherra. Lýðveldisflokkurinn hefur farið með stjórn landsins síðan á tíunda áratugnum og sætir ámæli fyrir spillingu.
Stjórnarskrá Armeníu var breytt með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2015. Var vald fært frá forseta landsins í hendur þings og ríkisstjórnar. Andstæðingar Lýðveldisflokksins sögðu ekki rétt að breytingunni staðið og töldu að nú hefði Sargsyan ætlað að reyna ræna völdum í skjóli hennar.
Ráðamenn í Moskvu fylgjast náið með framvindu mála í Armeníu, fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna. Moskvumenn líta á Armena sem bandamenn sína en í landinu eru tvær rússneskar herstöðvar. Þykir þróunin í Armeníu minna á það sem varð í Georgíu og Úkraínu en Kremlverjar vilja hafa hönd í bagga með því sem gerist í löndunum og hafa beitt hervaldi til að koma ár sinni fyrir borð í þeim. Pashinian vill eiga góð samskipti bæði við Rússa og Vesturlönd en Sargsyan er hallur undir Rússa.