Home / Fréttir / Árlegar heræfingar Rússa hefjast í vestri – skotæfingar á Kólaskaga

Árlegar heræfingar Rússa hefjast í vestri – skotæfingar á Kólaskaga

Danski flotinn tóks þessa mynd fyrr í vikunni af rússneska kjarnorkukafbátnum Orel. Hluti áhafnar hans kom í björgunarvestum upp á þilfar bátsins þegar hann varð vélarvana og rak í átt að danskri strönd. Komið var taug í hann úr rússneskum fylgdarskipum og síðan voru vélar hans ræstar.

Árlegar heræfingar við vestur landamæri Rússlands, Zapad-2021 hefjast um þessar mundir. Í norðri taka meira en 10.000 liðsmenn undir stjórn Norðurflota Rússlands þátt í æfingunum á sjó, landi og í lofti.

Fimmtudaginn 5. ágúst sagði norska vefsíðan Barents Observer að skotæfingar hefðu verið aðeins 20 km fyrir austan landamæri Noregs á Sredníj-tanga við Barentshaf. Æfingarnar snerust um að verjast liði sem reyndi landgöngu á tangann.

Á landi fyrir innan tangann eru skriðdrekar á ferð í Petsamó-dalnum og hefur íbúum á þessum slóðum verið sagt að halda sig fjarri æfingasvæði þeirra. Búast megi við hættulegri skothríð. Þetta æfingasvæði er aðeins 15 km fyrir austan landamæri Noregs og í 50 km fjarlægð frá landamærum Finnlands.

Nú eru um 30 herskip á hafi úti vegna æfinganna að sögn upplýsingadeildar Norðurflotans. Í þeim hópi eru skip úr Norðurflotanum sem eru á heimleið frá Eystrasalti eftir þátttöku í degi flotans 25. júlí í Kronstadt við St. Pétursborg. Í flotanum eru að minnsta kosti þrír kjarnorkuknúnir kafbátar, Vepr, Orel og Knjaz Vladimir. Skipin eru 5. ágúst fyrir norðvestan Þrándheim í Noregshafi.

Ekki vildi betur til þegar kafbáturinn Orel var á leið um dönsku sundinn en að hann varð vélarvana og lá við að hann ræki á land en rússneskum fylgdarskipum tókst að koma taug um borð í kafbátinn áður en það gerðist. Síðan tókst að ræsa vélar hans að nýju.

Bandaríski eftirlitsvél af RC-135-gerð flaug miðvikudaginn 4. ágúst fram og til baka yfir Barentshafi fyrir norðan Kólaskaga.

Herafli er fluttur frá Kólaskaga til rússneskra herflugvalla og stöðva annars staðar á norðurslóðum.

Að þessu sinni tekur herafli frá Hvíta-Rússlandi þátt í Zapad-æfingunum. Gerist það fjórða hvert ár og hefst þessi þáttur æfinganna í september 2021.

Fyrir skömmu sendi rússneska herstjórninni um hundrað þúsund hermenn að rússnesku landamærunum við Úkraínu og inn á Krímskaga. Liðsaflinn var síðan kallaður í búðir sínar í Rússlandi að nýju. Spenna hefur á hinn bóginn ríkt á Svartahafi meðal annars milli rússneskra og breskra herskipa.

 

Skoða einnig

Kristilegir demókratar (CDU) velja sér nýja forystu

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, kemur saman fyrir árslok til að velja …