
Árlegar heræfingar við vestur landamæri Rússlands, Zapad-2021 hefjast um þessar mundir. Í norðri taka meira en 10.000 liðsmenn undir stjórn Norðurflota Rússlands þátt í æfingunum á sjó, landi og í lofti.
Fimmtudaginn 5. ágúst sagði norska vefsíðan Barents Observer að skotæfingar hefðu verið aðeins 20 km fyrir austan landamæri Noregs á Sredníj-tanga við Barentshaf. Æfingarnar snerust um að verjast liði sem reyndi landgöngu á tangann.
Á landi fyrir innan tangann eru skriðdrekar á ferð í Petsamó-dalnum og hefur íbúum á þessum slóðum verið sagt að halda sig fjarri æfingasvæði þeirra. Búast megi við hættulegri skothríð. Þetta æfingasvæði er aðeins 15 km fyrir austan landamæri Noregs og í 50 km fjarlægð frá landamærum Finnlands.
Nú eru um 30 herskip á hafi úti vegna æfinganna að sögn upplýsingadeildar Norðurflotans. Í þeim hópi eru skip úr Norðurflotanum sem eru á heimleið frá Eystrasalti eftir þátttöku í degi flotans 25. júlí í Kronstadt við St. Pétursborg. Í flotanum eru að minnsta kosti þrír kjarnorkuknúnir kafbátar, Vepr, Orel og Knjaz Vladimir. Skipin eru 5. ágúst fyrir norðvestan Þrándheim í Noregshafi.
Ekki vildi betur til þegar kafbáturinn Orel var á leið um dönsku sundinn en að hann varð vélarvana og lá við að hann ræki á land en rússneskum fylgdarskipum tókst að koma taug um borð í kafbátinn áður en það gerðist. Síðan tókst að ræsa vélar hans að nýju.
Bandaríski eftirlitsvél af RC-135-gerð flaug miðvikudaginn 4. ágúst fram og til baka yfir Barentshafi fyrir norðan Kólaskaga.
Herafli er fluttur frá Kólaskaga til rússneskra herflugvalla og stöðva annars staðar á norðurslóðum.
Að þessu sinni tekur herafli frá Hvíta-Rússlandi þátt í Zapad-æfingunum. Gerist það fjórða hvert ár og hefst þessi þáttur æfinganna í september 2021.
Fyrir skömmu sendi rússneska herstjórninni um hundrað þúsund hermenn að rússnesku landamærunum við Úkraínu og inn á Krímskaga. Liðsaflinn var síðan kallaður í búðir sínar í Rússlandi að nýju. Spenna hefur á hinn bóginn ríkt á Svartahafi meðal annars milli rússneskra og breskra herskipa.