
Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK) arftaki Angelu Merkel á formannsstóli kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi brást við ESB-hugmyndum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta sunnudaginn 10. mars. AKK birti grein í Welt am Sonntag en 4. mars kynnti Macron hugmyndir sínar um framtíð ESB í blöðum í 28 aðildarlöndum ESB.
Í skýringu Die Welt á grein AKK segir að hún vísi bæði til stefnu Angelu Merkel og forvera hennar Helmuts Kohls á formannsstóli CDU.
Það sé í anda Merkel að leggja áherslu á að enn sem fyrr eigi leiðtogar ESB-ríkjanna að gegna úrslitahlutverki innan ESB. Þannig eigi að koma á fót evrópsku öryggisráði þar sem fulltrúi Breta sitji þrátt fyrir úrsögn þeirra úr ESB. Í ráðinu sitji ríkisoddvitar aðildarlandanna og eigi síðasta orðið en ekki framkvæmdastjórn ESB og því síður ESB-þingið. Þá talar AKK einnig um „sáttmála í þágu loftslagsverndar“ þar sem ríkisoddvitarnir komi einnig að málum. Hún segir að samstarf Evrópuþjóðanna verði að reisa á „tveimur jafn réttháum súlum, samstarfsvettvangi ríkisstjórna annars vegar og sáttmálum Evrópusambandsins hins vegar“.
Kramp-Knarrenbauer segir fyrstu knýjandi spurninguna vera hvort Evrópuríki vilji láta ákvarðanir Kínverja eða Bandaríkjamanna ráða ferðinni eða hvort þau vilji sjálf leggja sitt af mörkum við mótun reglna um samskiptin á alþjóðavettvangi. Þá verði Evrópuríkin að gera upp við sig hvort þau vilji líða Rússum að ýta undir sundrung meðal þeirra eða taka af skarið gegn slíkri fjandsamlegri íhlutun.
Hún leggur áherslu á að virkja verði öll ríki innan ESB til samstarfs og segir Die Welt að með þeim boðskap fari hún í smiðju til Helmuts Kohls sem ávallt hafi sagt að við töku ákvarðana mætti ekki ganga fram hjá meðalstórum og litlum ESB-ríkjum. Merkel hafi ekki lagt sérstaka áherslu á þetta.
AKK er ósammála Macron um aukið miðstjórnarvald innan ESB, hún vill ekki að skuldavanda einstakra ríkja sé breytt í sameiginlegan skuldavanda, hún vill ekki Evrópuvæða félagslega kerfið og telur hugmynd Macrons um lágmarkslaun á samræmdum grunni ekki til farsældar.
Hún er jákvæð gagnvart hugmyndinni um ESB-fjárveitingar til nýsköpunar. Þá tekur hún undir tillögur Macrons í loftslagsmálum. Hún leggur til að Frakkar og Þjóðverjar taki höndum saman um smíði flugmóðurskips. Þá nefnir hún gamla tillögu um að ESB fái fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þá er gert ráð fyrir að Frakkar gefi eftir sæti sitt í ráðinu.