Home / Fréttir / Arctic Circle: Hiti í umræðum um norðurslóðastefnu ESB

Arctic Circle: Hiti í umræðum um norðurslóðastefnu ESB

Micahel Mann, sérlegur erindreki ESB í norðuslóðamáium. (Mynd: HNN).

„Við höfum orðið vitni að því hætt er við miklar fjárfestingar á norðurslóðum vegna geðþóttaákvarðana,“ sagði Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar og varaformaður viðskiptaráðs norðurslóða, Artic Economic Council (AEC), á fundi á Arctic Circle í Hörpu fimmtudaginn 14. október.

Á norsku vefsíðunni High North News (HNN) segir að með orðum sínum hafi Heiðar gagnrýnt nýja norðurslóðastefnu ESB sem framkvæmdastjórn ESB kynnti miðvikudaginn 13. október. Þar segir að ekki skuli vinna olíu, gas og kol á norðurslóðum sé ætlunin að ná loftslagsmarkmiðum auk þess sem vinnslan skaði umhverfið á viðkvæmum svæðum. Hvatt er til þess að sett verði alþjóðlegt bann við vinnslu kolvetna á norðurslóðum.

Heiðar sagði þessa stefnubreytingu ESB „algjöran hrylling fyrir fjárfesta“. Þeir forðuðust alla óvissu. Móta þyrfti stefnu til langs tíma.

HNN segir að Mads Qvist Frederiksen, forstjóri AEC, hafi tekið undir með Heiðari og bent á að margir yrðu atvinnulausir yrði stefnu ESB fylgt fram á norðurslóðum.

Sérlegur erindreki ESB í norðurslóðamálum, Michael Mann, sem var á sínum tíma sendiherra ESB á Íslandi, sagði að í norðurslóðastefnu ESB fælist ekki árás á atvinnulíf á norðurslóðum. Markmiðið væri að hindra frekari boranir eftir olíu og gasi.

Mann sagði ESB ekki í trúverðugt ef sambandið liti fram hjá loftslagsbreytingum og tæki ekki afstöðu. Ekki væru veitt leyfi til borunar innan ESB og unnið yrði að því að fá samstarfsríki ESB til að setja einnig slíkt bann. Í stefnunni fælist upphaf samtals. Eftir tíu ár myndu menn velta fyrir sér hvers vegna um þetta hefði verið deilt, hvers vegna þetta hefði ekki einfaldlega verið bannað.

Heiðar svaraði og sagði að á norðurslóðum virtu menn ýmsa grunnþætti í viðskiptum. Einn væri að eiga samráð við heimamenn. Það hefði ekki verið gert af hálfu ESB. Það hefði átt að leita álits þeirra. Framkoma ESB líktist því að Norðurskautsráðið segðist hafa hugmyndir um hvernig best væri að haga stjórn á Miðjarðarhafi. Ráðið vissi allt best um það og aðrir ættu bara að hlusta á það.

Michael Mann svaraði og sagði ESB eiga náin samskipti við frumbyggja og þá sem byggju og störfuðu á norðurslóðum þótt ekki væri sagt frá því í stefnuskjalinu.

Fyrir 15 árum hefði ESB ekki sýnt nægilega gætni í afskiptum af málefnum norðurslóða. Í Brussel hefðu menn hins vegar lært af reynslunni. Áður fyrr hefði ekki verið tekið tillit til sjónarmiða heimamanna en nú hefði verulegum tíma og kröftum verið varið til viðræðna við þá og frumbyggja. Hann benti auk þess á að innan ESB væru þrjú aðildarlönd Norðurskautsráðsins: Finnland, Svíþjóð og Danmörk.

Aaja Chemnitz Larsen, formaður þingmannaráðs norðurslóða og þingmaður á danska þinginu, tók undir með Heiðari Guðjónssyni um rétt heimamanna til að taka ákvarðanir um atvinnurekstur og fjárfestingar.

Larsen sagði að samvinna við Bandaríkjamenn, ESB og Dani gagnaðist Grænlendingum. Enginn utan Grænlands gæti hims vegar ákveðið hvað væri landsmönnum fyrir bestu. Það yrðu þeir sjálfir að ákveða og hvaðan ætti að afla fjár frá sjávarútvegi, námuvinnslu eða ferðaþjónustu. Grænlendingar ynnu að góðum verkefnum með alþjóðlegum fjárfestum. Þeir yrðu sjálfir að ákveða hvað þeim væri fyrir bestu.

Heiðar minnti á að árið 1985 hefðu Grænlendingar ákveðið að segja skilið við ESB vegna ágreinings um sjávarútvegsstefnu ESB og til að fá að nýju forræði grænlenskra fiskstofna. Heimamenn á norðurslóðum yrðu að hafa stjórn atvinnumála sinna.

HNN segir að Virginijus Sinkevičius, sem fer með umhverfis-, úthafs- og sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB, hafi á fundir Artic Circle kynnt norðurslóðastefnu ESB og varið ákvörðunina um að banna vinnslu á olíu og gasi með vísan til loftslagsmála.

Mead Treadwell, fyrrverandi vara-ríkisstjóri Alaska, andmælti Sinkevičius og spurði hvers vegna ESB vildi stöðva alla olíu- og gasvinnslu fyrirtækja sem hefðu sjálfbærni að markmiði. Það væri skynsamlegra að stofna til viðræðna við þá sem við þetta störfuðu frekar en neyða þá til að leggja niður starfsemi sína.

Virginijus Sinkevičius svaraði að það yrði ekki ESB sem ætti síðasta orðið um lokun olíu- og gasfyrirtækja. Hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar mundu ráða ferðinni. ESB vildi vinna með hagsmunaaðilum að öðrum lausnum.

Arne O. Holm, aðalritstjóri High North News, spurði Michael Mann á öðrum fundi undir merkjum Arctic Circle hvort ESB ætlaði að beita sér fyrir að banna kaup á olíu og gasi. Mann svaraði neitandi en ætlunin væri að aðstoða þá sem vildu ná loftslagsmarkmiðum. Rætt yrði við nýja ríkisstjórn í Noregi um að hún félli frá stefnu sinni um að leyfa olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum.

Naaja Nathanielsen, húsnæðis-, mannvirkja, dóms-, jarðefna- og jafréttismála ráðherra Grænlands, áréttaði í ræðu á Arctic Circle að ný ríkisstjórn Grænlands bannaði olíu- og gasvinnslu á yfirráðasvæði sínu. Notaði hún sömu rök og Sinkevičius að hlýnun jarðar og loftslagsmarkmið gerðu þessa vinnslu tilgangslausa.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …