Home / Fréttir / Árás á flugherstöð á Krímskaga er Rússum mikið áfall

Árás á flugherstöð á Krímskaga er Rússum mikið áfall

Gervihnattarmynd sýnir mikið tjón í rússnesku flughertsöðinni á Krímskaga.

Mikið tjón varð þriðjudaginn 9. ágúst vegna sprenginga í flugherstöð rússneska flotans á Krímskaga sem Rússar skáru ólöglega af Úkraínu árið 2014 og eignuðu sér. Þetta sýna gervihnattarmyndir frá miðvikudeginum 10. ágúst.

Sakíj-flugherstöð rússneska flotans er skammt frá þorpinu Novofedorivka á Krímskaga. Þar gjöreyðilögðust að minnsta kosti níu herflugvélar, þar á meðal Su-30SM orrustuþotur og Su-24M sprengjuvélar. Þá eyðilögðust nokkrar byggingar á vellinum, þar kunna að hafa verið geymd skotfæri.

Rússar hafa reglulega sent vélar frá flugherstöðinni sem er á vesturhlið Krímskaga til árása á skotmörk í Úkraínu eftir að rússneski herinn réðst inn í landið 24. febrúar 2022.

Óvíst er hvað olli sprengingunum.

Ónafngreindir úkraínskir embættismenn hafa sagt bandarískum fjölmiðlum að her þeirra beri ábyrgð á sprengingunum án þess að skýra nánar hvernig var að verkinu staðið.

Rússneska varnarmálaráðuneytið ber til baka allar fréttir um árás á stöðina og segir að sprengingarnar megi rekja til „brota gegn öryggiskröfum“.

Vestrænir sérfræðingar sem hafa skoðað gervihnattarmyndir af flugvellinum segja að þar megi sjá nokkra stóra sprengjugíga sem allir virðist af sömu stærð, það bendi til margra árása.

Myndskeið sem rötuðu inn á samfélagsmiðla 9. águst sýna nokkra þykka, reykjarbólstra stíga til himins.

Tjón varð á heimilum, bifreiðum og öðrum hlutum í nágrenni herstöðvarinnar. Leppstjóri Rússa á Krímskaga sagði 9. ágúst að einn hefði fallið í sprengingunum og 14 særst, þá hefði tjón orðið á að minnsta kosti 80 byggingum.

Sérfræðingar segja að allar flugvélar sem voru í herstöðinni hafi líklega skaðast en af myndum megi ráða að þar hafi verið allt að 30 flugvélar þriðjudaginn 9. ágúst. Bent er á að í Sakij-stöðinni sjáist engin flugskýli. Með öflugum skýlum hefði mátt bjarga mörgum vélum þrátt fyrir sprengingarnar.

Úkraínumenn hafa ekki verið taldir ráða yfir skotflaugum sem draga þá vegalengd sem er frá skotstöðvum þeirra á landi til Sakíj-stöðvarinnar. Hugsanlega hafi verið skotið á stöðina frá sjó. Þá kunni skemmdarverkamenn að hafa laumast inn í stöðina og komið þar fyrir sprengjum.

Standi her Úkraínu að baki árásinni á flugherstöðina er um fyrstu árás hans á rússneska herinn á Krímskaga að ræða frá innlimun skagans í Rússland árið 2014.

Hernaðarlega og sálrænt er um áfall fyrir Rússa að ræða, sérstaklega sýni árásin að Úkraínumenn eigi nógu langdræg vopn og varðstaða Rússa sé svona veik.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …