
Yfirvöld í Panama neita að skrá björgunarskipið Aquarius undir fána sinn. Þau tilkynntu á vefsíðu sinni að þau hefðu afturkallað skráningu skipsins Aquarius 2.
Ástæðan fyrir afturkölluninni er sögð „alþjóðlegar skýrslur“ um að skipið hafi ekki farið að alþjóðareglum við meðferð á flótta- og farandfólki á Miðjarðarhafi.
Þarna er einkum vísað til ásakana frá ítölskum yfirvöldum. Að þeirra mati „neitaði skipstjóri skipsins að fara með farand- og flóttafólk sem hann bjargaði aftur til upphafslanda þeirra“.
Í ágúst afskráðu yfirvöld á Gíbraltar skipið. Þess vegna hefur Aquarius legið við bryggju í Marseille í Frakklandi frá því í lok ágúst. Um miðjan september fékk skipið skráningu í Panama undir nafninu Aquarius 2 og lagði að nýju af stað í björgunarleiðangur. Fimmtudaginn 20. september var 11 manns bjargað um borð í skipið undan strönd Líbíu.
Björgunarskipið hefur síðan 2016 þjónað samtökunum SOS Méditerranée og samtökunum Læknar án landamæra. Í sumar hefur reynst sífellt erfiðara að finna hafnir þar sem unnt er að setja þá sem bjargað hefur verið í land. Í júní var Aquarius dögum saman á hafi úti með meira en 600 manns um borð. Ný stjórn á Ítalíu lokaði höfnum fyrir skipinu og sama gerðist á Möltu. Að lokum leyfði ný stjórn á Spáni skipinu að koma til Valenciu.
Eftir að þessi vandræði endurtóku sig í ágúst leyfði stjórn Möltu skipinu að koma til hafnar á eyjunni. Áður hafði verið samið um það á vettvangi ESB að flóttamönnunum um borð (141) yrði deilt á fimm ESB-ríki.