Home / Fréttir / Annar floti Bandaríkjanna til æfinga á Eystrasalti

Annar floti Bandaríkjanna til æfinga á Eystrasalti

 

Andrew Lewis, yfirmaður 2. flota Bandaríkjanna.
Andrew Lewis, yfirmaður 2. flota Bandaríkjanna.

Nú er um ár frá því að tekin var ákvörðun um að virkja 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotann, að nýju en honum var lagt árið 2011. Stjórnstöð og heimahöfn flotans er í Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum. Þar hefur Atlantshafsherstjórn NATO einnig verið opnuð að nýju.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að flotinn var formlega virkjaður hefur verið unnið að gerð aðgerðaáætlana fyrir hann og nú eru skip úr honum að búa sig undir æfingar á Eystrasalti. Andrew Lewis aðmíráll fer með stjórn flotans.

Athafnasvæði flotans nær frá austurströnd Bandaríkjanna út á Norður-Atlantshaf að Evrópu og norður í Íshaf.

James Mattis, þáv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í aðdraganda þess að tilkynnt var í maí 2018 að 2. flotinn kæmi að nýju til sögunnar að varnaráætlanir Bandaríkjanna tækju mið af því sem sjá mætti hjá Rússum og Kínverjum. Rússar hafa aukið flotaumsvif sín á Norður-Atlantshafi, einkum með kafbátum.

Lewis aðmíráll áréttaði í tilkynningu að á Norður-Atlantshafi væru sumar fjölförnustu sjóleiðir heims og opnuðust siglingaleiðir í Norður-Íshafi mundi skipaferðum þar fjölga enn frekar. Aðgerðir 2. flotans tækju mið af þessu.

Að nokkru falla svæði 2. og 6. flota Bandaríkjamanna á Miðjarðarhafi saman. Til að skerpa skilin milli flotanna verða verkefni 2. flotans meðal annars fyrir norðan GIUK-hliðið, það er línu sem dregin er frá Grænlandi um Ísland til Bretlands, og teygir svæði hans sig þannig inn á Norður-Íshaf og Barentshaf.

Miðvikudaginn 29. maí sagði Lewis blaðamönnum á fundi í Norfolk að með því að virkja 2. flotann væri tekið mið bæði af áformum Kínverja og Rússa, en þó væru einkum Rússar undir smásjá flotastjórnar hans.

Á fréttasíðu bandaríska flotans, USNI News, segir að talsmenn flotans séu tregir til að greina í smáatriðum frá hættunni af Rússum, einkum að því er varðar nýjustu gerð rússneskra árásarkafbáta sem búnir eru langdrægum eldflaugum til árása á skotmörk á landi og geta þar með ógnað borgum margra NATO-ríkja. Enn minna er vitað um nýja gerð rússneskra neðansjávarvopna, þeim er lýst sem háhraða kjarnorku-tundurskeytum.

Nú í júní verður árleg æfing á vegum NATO á Eystrasalti (BALTOPS 2019). Hún verður að þessu sinni undir forystu 2. flotans með þátttöku skipa frá NATO ríkjum og samstarfsríkjum þeirra. Svíþjóð og Finnlandi.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …