Home / Fréttir / Anis Amri leitað um alla Evrópu vegna gruns um aðild að hryðjuverkinu í Berlín

Anis Amri leitað um alla Evrópu vegna gruns um aðild að hryðjuverkinu í Berlín

Anis Amri
Anis Amri

 

Þýska lögreglan telur fullsannað að Túnisinn Anis Amri hafi verið í flutningabílnum sem ekið var inn í jólamarkað við minningarkirkjuna  í Berlín að kvöldi mánudags 19. desember, 12 manns týndu lífi og um 50 særðust, sumir lífshættulega. Lögreglan leitaði fyrst að manni að fenginni ábendingu vegfaranda og handtók Pakistana sem fljótlega var látinn laus. Lögreglan hefur sett 100.000 evrur til höfuðs Anis Amri. Nú veit enginn hvort hann er lengur í Þýskalandi,

Anis Amri fæddist 22. desember 1992 og varð því 24 ára fimmtudaginn 22. desember 2016.  Hann er 178 cm á hæð og um 75 kg að þyngd, svarthærður með brún augu. Honum er lýst sem ofbeldismanni og glæpamanni. Hann yfirgaf fæðingarland sitt þegar hann var 17 eða 18 ára.

Fjölskylda Amris býr í Oueslatia í norðaustur héraði Túnis, Kairouan, þar sem salafistar, öfgasinnar múslimar, ráða. Í staðarblaðinu Al-Chourouk segir að fjölskylda Amris hafi ekki haft neitt samband við hann frá því að hann hvarf að heiman undir árslok 2010.

Amri framdi fyrsta afbrot sitt í Túnis, árið 2010 stal hann flutningabíl. Skömmu síðar yfirgaf hann Túnis. Að honum fjarstöddum var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir þjófnað.

Faðir hans sagði við túnisku útvarpsstöðina Mosaique FM að Anis Amri hefði yfirgefið Túnis fyrir um sex árum. Honum virðist því hafa tekist að flýja í umrótinu sem varð skömmu eftir byltinguna gegn einræðisherranum Ben Ali.

Bróðir hans, Abdelkader Amri, hvetur Anis til að gefa sig fram. „Ég trúi því ekki að hann hafi framið þetta afbrot.“ Kæmi hins vegar í ljós að bróðir hans hefði unnið ódæðið ætti hann skilið að hljóta „hvaða refsingu sem er“. „Ég hvet hann til að snúa sér til lögreglunnar,“ sagði hann við AP-fréttastofuna.

Bróðirinn segir við þýska blaðið Bild að um tvær vikur séu síðan þeir höfðu síðast samband. „Þegar sannað hefur verið að hann átti hlut að máli slítum við öllu sambandi við hann.“ Ef til vill hafi bróðir sinn fallið fyrir öfgahyggju í ítölsku fangelsi.

Anis Amri kom sem bátaflóttamaður til ítölsku eyjarinnar Lampedusa árið 2011 segir staðarfréttastofan Ansa. Hann var sendur í flóttamannabúðir á Sikiley. Hann sagðist þá vera ólögráða þótt hann væri orðinn 19 ára.

Fréttir herma að í skóla á Ítalíu hafi hann komið fram sem ofbeldismaður. „Hann skapaði hræðsluástand í bekknum sínum,“ segir ítalska blaðið La Stampa þann skamma tíma sem hann sótti skóla í Cataníu á Skiley árið 2011. Hann olli eignaskemmdum, beitti hótunum og barsmíðum. Þegar reynt var að hemja hann umturnaðist hann. „Sögu hans sem góðs aðkomumanns lauk með tilraun hans til að kveikja í skólanum,“ segir í blaðinu með vísan til sakaskráar hans.

Ansa segir að hann hafi gert uppreisn gegn „trúlausum“ í búðum hælisleitenda. Ásamt öðrum flóttamönnum hafi hann kveikt í búðunum.

Þýska blaðið Die Welt fékk þær upplýsingar hjá ítölskum stjórnvöldum að hann hefði verið handtekinn í Belpasso skammt frá bænum Cataníu á árinu 2011. Í Palermo var hann síðan dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir „ýmis brot“ (ofbeldi, íkveikju, líkamsárás og þjófnað). Meðfangar sögðu hann ofbeldisfullan. Hann sat inni í fangelsum í Cataníu og Palermo.

Honum var sleppt í maí 2015. Ítalir áttu ekki frekar en þýsk yfirvöld annarra kosta völ þar sem yfirvöld í Túnis neituðu að viðurkenna Amri sem borgara lands síns. Ítölsk yfirvöld hafa lagt fram mynd af Amri og afrit af fingraförum hans.

Amri kom til Þýskalands í júlí 2015. Hann „fór víða“ segir innanríkisráðherra Nordrhein-Westfalen (NRW), jafnaðarmaðurinn (SPD) Ralf Jäger. Hann var um skeið í Freiburg í Baden-Württenberg síðan í Nordrhein-Westfalen og loks í Berlín – þar hefur hann meira og minna haldið sig síðan í febrúar 2016.

Viðkomandi yfirvöld í Kleve (NRW) höfnuðu hælisumsókn hans í júní 2016 og var brottvísun hans frá Þýskalandi í þeirra höndum. Það tókst ekki að senda hann til Túnis vegna þess að hann hafði ekki nein gild skilríki og yfirvöld í Túnis drógu í efa að hann væri túniskur ríkisborgari.

Að lokum fór svo að ný skilríki bárust fyrir Amri bárust frá Túnis miðvikudaginn 21. desember – tveimur dögum eftir að ódæðisverkið var framið.

Amri valdi sér ýmis dulnefni og ýmsar stofnanir fylgdust með honum sem íslömskum öfgamanni.

Hann hafði samband við íslamska öfgamenn. Í Süddeutsche Zeitung og sjónvarpsstöðvunum NDR og WDR hafa birst fréttir um tengsl hans við predikara salafista í Hildesheim, Abu Walaa, sem nýlega var handtekinn og talinn er aðalhugmyndafræðingurinn meðal salafista í Þýskalandi.

Fylgst var með Amri í Berlín frá mars fram í september 2016. Eftirlitið leiddi í ljós að líklega stundaði Amri sölu á fíkniefnum Görlitzer-garði í Kreuzberg-hverfinu í Berlín

Í Bild segir að eftir hnífstungu í Berlín-Neukölln hafi hann átt saksókn yfir höfði sér fyrir líkamsárás.

Vegna gruns um að hann tæki þátt í að undirbúa stórfellda árás gegn hagsmunum ríkisins hófst rannsókn á honum. Henni var hætt eftir nokkra mánuði þar sem hún leiddi ekkert í ljós. Síðar var talið að hugsanlega hefði Amri reynt að afla sér fjár með innbroti til að gera þess árás. Engin sönnun fannst fyrir því þrátt fyrir framlengda rannsókn.

Vegna tengsla sinna við Daesh (Ríki íslams) var fjallað um mál Amris á fundi í miðstöð hryðjuverkavarna Gemeinsamen Terrorismusabwehrzentrum (GTAZ) í Berlín í nóvember en 40 þýskir starfsmenn á sviði öryggismála sátu fundinn.

Í Der Spiegel segir að fyrir nokkrum mánuðum hafi öryggisyfirvöld velt fyrir sér á grundvelli óljósra heimilda hvort Amri hefði boðið sig fram sem sjálfsmorðingja innan raða íslamista. Þetta mætti ráða af eldri rannsóknum vegna nokkurra haturspredikara. Yfirlýsingar Amris á internetinu hafi hins vegar verið þess eðlis að ekki hefði verið unnt að láta til skarar skríða gegn honum.

The New York Times segir að bandarísk yfirvöld hafi haft auga með Anis Amri. Þau hafi sett hann á svonefndan No-Fly-List það er að hann yrði ekki skráður á neinn farþegalista í flugvél til Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn segja að hann hafi að minnsta kosti einu sinni haft samband við Daesh í gegnum netþjónustuna Telegram og kannað hvernig best væri að gera sprengju.

 

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …