
Angela Merkel Þýskalandskanslari tilkynnti laugardaginn 7. október að kristilegir demókratar (CDU) mundu hefja stjórnarmyndunarviðræður við Græningja og Frjálsa demókrata (FDP).
Tilkynningin kom ekki á óvart í ljósi þess að núverandi samstarfsmenn Merkel í ríkisstjórn, Jafnaðarmenn (SPD), hafa lýst yfir að þeir ætli að standa utan ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili.
Hún segir að þessi þriggja flokka „Jamaíka-stjórn“ sé eini raunhæfi kosturinn eigi að mynda meirihlutastjórn á þýska þinginu. Nafnið dregur stjórnarmynstrið af flokkslitunum þremur, svörtum, gulum og grænum. Þeir eru sömu og í fána Jamaíka.
Merkel lýsti áformum sínum um stjórnarmyndun á þingi ungliða innan CDU sem haldið er í Dresden í Saxlandi.
CDU og systurflokkurinn CSU í Bæjarlandi fengu tæp 33% atkvæða í þingkosningunum 24. september. Kristilegir mynda stærsta þingflokkinn á Reichstag í Berlín.
„Það er augljóst að um fyrirsjáanlega framtíð hefur SPD ekki burði til að sitja í sambandsstjórninni,“ sagði Merkel í ræðunni. Það væri ekki ætlun kristilegra að velta málinu lengur fyrir sér heldur ætluðu forystumenn CDU að einbeita sér að því að ná samkomulagi við CSU, FDP og Græningja.
Merkel sagðist ætla að hitta Horst Seehofer, leiðtoga CSU, sunnudaginn 8. október til að stilla saman strengina fyrir viðræður við forystumenn FDP og Græningja.
Hún hvatti til þess að CSU semdi við CDU um árlegan hámarksfjölda flóttamanna sem kæmu til Þýskalands. Innan CDU, FDP og meðal Græningja hefur verið andstaða við kröfur CSU um þetta efni.