Home / Fréttir / Andøya heimavöllur langdrægra norskra dróna

Andøya heimavöllur langdrægra norskra dróna

Norðmenn kunna að kaupa RQ-4B Black Hawk-dróna til að hafa á Andøya til langra eftirlitsferða.

Norska ríkið ætlar að kaupa stóra dróna sem eiga að auðvelda eftirlit og gæslu á Barentshafi. Heimavöllur drónanna verður á Andøya um 300 km fyrir norðan heimskautsbaug.

„Langdrægir drónar eru hluti af nýjum tækjabúnaði herafla okkar. Þeir munu tryggja stöðugt eftirlit okkar og mat á ástandi á svæðinu,“ segir Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, á vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 3. apríl.

„Það skiptir höfuðmáli fyrir gæslu eigin yfirráðasvæðis að við höfum búnað til að geta lagt mat á stöðuna hverju sinni,“ segir ráðherrann.

Fyrr á árum höfðu P-3 Orion eftirlitsflugvélar norska hersins aðsetur á Andøya.

Norska ríkisstjórnin segir að nýju langdrægu drónarnir verði einnig notaðir til eftirlits með náttúruhamförum og við björgunaraðgerðir. Þeir verða liður í fjölþjóðlegri samvinnu Norðmanna við bandamenn sína að því er varðar þjálfun, stjórn og þróun.

„Ríkisstjórnin ætlar Andøya stórt hlutverk,“ segir Gram ráðherra.

Flugherstöðin á Andøya gegndi lykilhlutverki fyrir loftvarnir Noregs í kalda stríðinu en stöðinni var lokað árið 2023 þegar P-8 Poseidon eftirlitsþotur tóku við að P-3 Oríon-vélunum.

Fyrir utan að verða aðsetur langdrægu drónanna mun stöðin á Andøya einnig þjóna „nýrri deild sameiginlegrar þjálfunar og þróunar“. Þar geta flugvélar bandamanna Norðmanna athafnað sig á friðartímum og einnig komi til átaka segir norska varnarmálaráðuneytið.

Aðalflugbrautin á eyjunni er 2.440 m löng og þverbraut er 1.670 m löng, þar eru stór flughlöð fyrir allar tegundir flugvéla, þar á meðal orrustuþotur. Almennt farþegaflug fer einnig um völlinn.

Á eyjunni er Andøya Spaceport, miðstöð tengd geimstarfsemi sem nýtist norska hernum og stuðlar að tvíhliða og fjölþjóðlegu samstarfi.

Drónar koma mjög við sögu í stríðinu í Úkraínu. Segir Barents Observer að Rússar virðist nú óttast drónaárásir á stöðvar í Norður-Rússlandi. Nýleg æfing rússneska Norðurflotans bendi til að þar hafi verið gripið til varna gegn hugsanlegri drónaárás á lykilherstöðina í Severomorsk. Á dögunum voru æfingar í Barentshafi á nýjum freigátum rússneska Norðurflotans og voru átök við óvina-dróna mikill þáttur í þeim.

 

.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …