Home / Fréttir / Andlát: Rússneski ofurstinn sem sagðist hafa komið í veg fyrir kjarnorkustríð

Andlát: Rússneski ofurstinn sem sagðist hafa komið í veg fyrir kjarnorkustríð

 

Stanislav Petrov
Stanislav Petrov

Þegar hann var ofursti í rússneska hernum kom Stanislav Petrov hugsanlega í veg fyrir árás á Vesturlönd sem hefði getað leitt til kjarnorkustríðs. Nú er hann allur. The Daily Telegraph segir hann hafa andast 19. maí 2017, 77 ára að aldri.

Fyrst fréttist opinberlega af andláti hans þegar Karl Schumacher, þýskur kvikmyndagerðarmaður, reyndi nýlega að ná símasambandi við Petrov en sonur hans Dmitríj svaraði og sagði föður sinn hafa andast í maí.

Petrov varð heimsfrægur vegna atviks sem varð aðfaranótt 26. september 1983. Petrov var þá að vakt í leynilegri herstöð fyrir utan Moskvu. Þar fylgdust Rússar með merkjum frá gervihnöttum sem áttu að berast með viðvörun um að Bandaríkjamenn væru að hefja árás á Sovétríkin.

Petrov hafði ekki verið lengi á vakt þegar viðvaranir bárust. Tölvurnar sögðu Petrov að fimm langdrægar eldflaugar hefðu verið sendar á loft frá bandarískri skotstöð. Hann hafði aðeins fáeinar sekúndur til að ákveða hvort hann léti yfirmenn sína vita um yfirvofandi árás að mati tölvanna.

Hefði hann gert það er mjög líklegt að herstjórnin hefði gefið fyrirmæli um gagnárás þar sem mikill kuldi einkenndi samskipti Sovétmanna og Bandaríkjamanna um þær mundir. Petrov hélt að sér höndum og lét hjá líða að senda boð áfram til yfirboðara sinna.

Síðar sagði hann fjölmiðlamönnum að hann hefði ekki treyst tölvunum og það hefði vakið undrun sína að Bandaríkjamenn hefðu skotið fimm eldflaugum á loft. Þeir hefðu sent miklu fleiri flaugar væri árásin raunveruleg.

Petrov gat andað léttar 23 mínútum  eftir að viðvörunin barst. Mat hans var rétt, þetta var tölvubilun.

Fyrst var skýrt frá þessari reynslu Petrovs árið 1998. Fyrst var Petrov hrósað en síðan sakaði rússneska herstjórnin hann um vanrækslu í starfi, hann hefði ekki skráð atvikið í dagbók herstöðvarinnar. Ferli hans innan hersins lauk og hann var settur á eftirlaun án þeirra sérkjara sem rússneskir ofurstar njóta venjulega.

Petrov var ekkert i sviðsljósinu lokaár ævi sinnar.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …