Home / Fréttir / Amnesty sætir skömm Úkraínumanna

Amnesty sætir skömm Úkraínumanna

Oksana Pokalstjuk, fráfarndi stjórnandi Amnesty International í Úkraínu.

Oksana Pokalstjuk, stjórnandi Amnesty International í Úkraínu, sagði af sér eftir að samtökin birtu skýrslu þar sem her Úkraínu var sakaður um að stofna lífi almennra borgara vísvitandi í hættu.

Stjórnvöld í Kyív brugðust ókvæða við skýrslunni þar sem þau eru sökuð að halda úti herstöðvum og vopnabúrum í íbúðahverfum – og nálægt skólum og sjúkrahúsum – í varnaraðgerðum sínum gegn innrásarher Rússa.

„Ég geng úr Amnesty International í Úkraínu,“ sagði Pokalstjuk í yfirlýsingur á Facebook-síðu sinni að kvöldi föstudags 5. ágúst þar sem í skýrslu samtakanna um Úkraínu væri óafvitandi tekið undir „rússneskan áróður“.

„Búi maður ekki í landi sem hefur orðið fyrir árás innrásarhers sem rífur það í sundur getur maður líklega ekki skilið hvað felst í að fordæma her þeirra sem verjast,“ sagði hún einnig þegar hún kvaddi Amnesty.

Hún sagðist árangurslaust hafa reynt að sannfæra yfirstjórn Amnesty International um að skýrslan væri hlutdræg og tæki ekki tillit til sjónarmiða varnarmálaráðuneytis Úkraínu.

Yfirstjórn Amnesty sagði fimmtudaginn 4. ágúst að hún stæði að öllu leyti að baki skýrslunni.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sakaði á hinn bóginn Amnetsy um að færa ábyrgð „árásaraðilans á fórnarlamb hans“ og um tilraun til að „veita hryðjuverkaríkinu [Rússlandi] sakaruppgjöf (e. amnesty)“

„Í skýrslunni er farið rangt með staðreyndir, á röngum forsendum er siðferði árásaðilans og fórnarlambsins lagt að jöfnu og ýtt er undir upplýsingafalsanir Rússa. Þetta er fölsk „óhlutdrægni“, ekki sannsögli,“ sagði Dmjitro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, á Twitter.

Pokalstjuk fullyrðir að Amnesty hafi snúið sér til varnarmálaráðuneytis Úkraínu en „gefið því mjög skamman tíma til að svara“. Þess vegna hafi samtökin óafvitandi birt skýrslu sem virðist óafvitandi styðja útgáfu Rússa. Tilraun til að vernda almenna borgara hafi snúist í áróðurstól Rússa, sagði hún. Um skeið hefði hún verið svo barnaleg að vona að rangur textinn yrði leiðréttur fyrir birtingu hans, það hefði reynst borin von.

Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty Internationa, sagði laugardaginn 6.ágúst „leitt“ að heyra um afsögn Pokalstjuk en hún „virti ákvörðun“ hennar. Pokalstjuk hefði stjórnað Amnesty-skrifstofunni í Úkraínu í sjö ár og unnið marga sigra í mannréttindamálum.

Föstudaginn 5. ágúst áréttaði Callamard að niðurstöður skýrslunnar væru „reistar á gögnum sem rekja má til víðtækra rannsókna sem gerðar voru á grunni jafnstrangra staðla og sannprófana og gilda um allt starf Amnesty International“.

Athuganir Amnesty International í Úkraínu ná til fjögurra mánaða. Í skýrslunni eru þær sakir bornar á her Úkraínu að hann setji upp herstöðvar í skólum og sjúkrahúsum og hefji árásir frá þéttbýlum svæðum, beiti með öðrum orðum aðferðum sem Amnesty segir að brjóti í bága við alþjóðleg mannúðarlög.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …