Home / Fréttir / Amnesty International segir enga réttlætingu á afbrotum Rússa í Úkraínu

Amnesty International segir enga réttlætingu á afbrotum Rússa í Úkraínu

Móðir við líkamsleifar sonar síns í kirkjugarði í Úkraínu.

Amnesty International sætti áfram þungri gagnrýni mánudaginn 8. ágúst fyrir skýrslu sína um Úkraínu þar sem stjórnvöld í Kyív eru sökuð um að stofna lífi almennra borgara i hættu. Embættismenn Kyív-stjórnarinnar og vestrænir diplómatar telja að skýrslan geti orðið til þess að rússnesk stjórnvöld finni þar réttlætingu fyrir auknum þunga í sprengjuárásum á borgaraleg skotmörk í Úkraínu.

Stjórnandi skrifstofu Amensty í Úkraínu sagði af sér störfum vegna skýrslunnar og Volodymyr Zelenskíj, forseti Úrkaínu, fordæmdi hana. Í yfirlýsingu sunnudaginn 7. ágúst sagðist Amensty International harma að skýrsla hefði sært tilfinningar fólks.

Á Twitter-síðu rússneska sendiráðsins sagði hins vegar að væri borgaralegt mannvirki „notað í hernaðarlegum tilgangi, breytist það í lögmætt skotmark sé beitt nákvæmni-vopni“. Þessi ummæli urðu enn til þess að ýta undir viðbrögð við skýrslunni. Hún birtist fimmtudaginn 4. ágúst með þeim texta að vera hers Úkraínu í íbúðahverfum yki á hættuna sem steðjaði að almennum borgurum vegna innrásar Rússa.

Í yfirlýsingu samtakanna segir:

„Amnesty International harmar innilega þjáninguna og reiðina sem birting fréttatilkynningar okkar um bardagaaðferðir hers Úkraínu hefur valdið. Vegna þessara átaka eins og allra annarra átaka er það forgangsmál hjá Amnesty International að tryggja vernd almennra borgara. Með birtingu síðustu skýrslu okkar höfðum við ekkert annað í huga. Við stöndum alfarið við það sem þar segir og hörmum hafi það sært einhvern.“

Oksana Pokaltsjuk, stjórnandi Amnesty-skrifstofunnar í Úkraínu, sagði við afsögn sína að skýrslan væri áróðursgjöf til Moskvumanna.

Embættismenn Úkraínu segja að þeir leggi sig fram um að flytja almenna borgara á brott frá átakasvæðum.

Í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sagði talsmaður aðalritara samtakanna í tilefni af skýrslu Amnesty International að SÞ hefðu hvað eftir annað krafist þess að hugað yrði að því að vernda almenna borgara í Úkraínu.

Amnesty International segir nú í yfirlýsingu sinni að rannsakendur samtakanna hafi fundið her Úkraínu nærri hverfum almennra borgara í 19 þorpum og bæjum. Þetta auki líkur á að Rússar réðust á hverfin.

Þá segir í yfirlýsingunni:

„Í þessu felst hvorki að Amnesty International telji her Úkraínu bera ábyrgð á afbrotum rússneska hersins né ásakanir um að her Úkraínu geri ekki viðunandi varúðarráðstafanir annars staðar í landinu.

Við viljum segja alveg skýrt: Ekkert sem við skjalfestum um aðgerðir hers Úkraínu réttlætir á nokkurn hátt afbrot Rússa.“

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …