Ríkisoddvitar NATO-ríkjanna 30 auk Svíþjóðar og Finnlands og Evrópusambandsins efndu til fjarfundar föstudaginn 25. febrúar til að ræða stöðu mála eftir innrás Rússa í Úkraínu. Hér birtist ályktun fundarins í íslenskri þýðingu:
Við komum saman í dag til að ræða alvarlegustu ógnina við Evró-Atlantshafs- öryggið um áratuga skeið. Við fordæmum með eins þungum orðum og unnt er allsherjar innrás Rússa í Úkraínu með tilstyrk Hvíta-Rússlands. Við hvetjum Rússa til að hætta hernaðarárás sinni tafarlaust, til að kalla allan liðsafla sinn frá Úkraínu og hverfa frá árásarleiðinni sem þeir hafa valið. Árásin á Úkraínu var undirbúin á löngum tíma, hún beinist gegn sjálfstæðu, friðsömu lýðræðisríki, hún er grimmdarleg og að öllu tilefnislaus og óréttlætanleg. Við hörmum sorglegt mannfall, gífurlegar mannlegar raunir og eyðileggingu vegna aðgerða Rússa. Friði á evrópska meginlandinu hefur splundrast frá grunni. Umheimurinn mun kalla Rússa og Hvítrússa til ábyrgðar fyrir aðgerðir þeirra. Við hvetjum öll ríki til að fordæma fyrirvaralaust þessa samviskulausu árás. Enginn ætti að láta blekkjast af lygavaðli Rússa.
Rússar bera fulla ábyrgð á þessum átökum. Þeir hafa hafnað leið diplómatíu og viðræðna sem NATO og bandalagsríkin hafa hvað eftir annað boðið. Þeir hafa þverbrotið alþjóðalög, þar á meðal stofnskrá SÞ. Aðgerðir Rússa eru einnig í algjörri andstöðu við meginsjónarmiðin sem liggja til grundvallar samstarfssamningi NATO og Rússa (e. NATO-Russia Founding Act): Rússar hafa sagt skilið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Ákvörðun Pútins forseta um að ráðast á Úkraínu er hrikaleg strategísk mistök og fyrir hana verða Rússar að gjalda dýru verði, bæði efnahagslega og stjórnmálalega næstu árin. Viðtækar og fordæmalausar refsiaðgerðir hafa þegar verið lagðar á Rússa. NATO mun áfram vinna náið með öllum viðeigandi hagaðilum og öðrum alþjóðastofnunum þar á meðal ESB til að samræma aðgerðir. Fulltrúar Finna, Svía og Evrópusambandsins sátu fundinn í dag í boði framkvæmdastjórans.
Við sýnum lýðræðislega kjörnum forseta, þingi og ríkisstjórn Úkraínu fulla samstöðu og einnig hugrökkum íbúum Úkraínu sem verja nú ættjörð sína. Hugur okkar er hjá þeim sem hafa fallið, særst eða glatað búsetu sinni vegna árásar Rússa og einnig hjá fjölskyldum þeirra. NATO virðir áfram öll grundvallarsjónarmiðin að baki evrópsku öryggi, þar á meðal að sérhver þjóð hefur rétt til að ákveða sjálf gæslu eigin öryggishagsmuna. Við munum áfram veita Úkraínumönnum stjórnmálalegan og hagnýtan stuðning þegar þeir verjast og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama. Við ítrekum óbifanlegan stuðning okkar við sjálfstæði, fullveldi og rétt Úkraínumanna til landsyfirráða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra sinna, þar á með landhelgi þeirra. Þessi meginafstaða er óhagganleg.
Í ljósi aðgerða Rússa munum við grípa til alls þess sem talið er nauðsynlegt varðandi fælingarmátt og skipan varna NATO. Bandalagsþjóðirnar hafa stofnað til samráðs í samræmi við 4. gr. Atlantshafssáttmálans. Við munum sem fyrr grípa til allra ráða sem eru nauðsynleg til að tryggja öryggi og varnir allra bandalagsþjóðanna. Við höfum komið fyrir land- og flugher í austurhluta bandalagsins og herflota víða á NATO-svæðinu. Við höfum virkjað varnaráætlanir NATO og búið okkur undir að bregðast við því að ýmis atvik geti orðið og tryggt bandalagssvæðið, þar á meðal með viðbragðsherafla okkar. Við munum nú fjölga umtalsvert í varnarliði okkar í austurhluta bandalagssvæðisins. Við munum sjá til þess að fyrir hendi sé nauðsynlegur liðsafli til að tryggja öflugan og trúverðugan fælingarmátt og varnir hvarvetna í bandalaginu, nú og í framtíðinni. Aðgerðir okkar eru og verða til varnar, hæfilegar og þeim er ekki ætlað að stigmagnast.
Hollusta okkar við 5. grein Atlantshafssáttmálans er óbifanleg. Við stöndum einhuga að vernd og vörnum allra bandalagsþjóðanna. Frelsi sigrar ætíð kúgun.