Home / Fréttir / Alvara sænskra öryggismála – víðtækur stuðningur við tvihliða varnarsamninginn við Bandaríkin

Alvara sænskra öryggismála – víðtækur stuðningur við tvihliða varnarsamninginn við Bandaríkin

Niklas Granholm

Niklas Granholm, vara-rannsóknastjóri á sviði öryggismála við Sænsku varnarmálastofnunina (FOI), telur næsta öruggt að sænska þingið samþykki varnarsamninginn við Bandaríkin sem ritað var undir 5. desember 2023 í varnarmálaráðuneytinu í Washington. Tveir þriðju sænskra þingmanna verða að samþykkja samninginn til að hann taki gildi:

„Öruggur meirihluti þingmanna styður hann,“ segir Granholm við Astri Edvardsen, blaðamann norsku vefsíðunnar High North News (HNN) sem birtist 15. desember. „Stjórnarflokkarnir þrír, Moderatarnir, Kristilegir og Frjálslyndir, styðja samninginn einnig Svíþjóðardemókratar, Jafnaðarmannaflokkur Svíþjóðar og Miðflokkurinn. Einu sem eru á móti eða hikandi eru Græningjar og Vinstriflokkurinn. Gerist ekkert óvænt tel ég að mikill meirihluti þingmanna styðji samninginn,“ segir Granholm.

„Menn sjá að öryggi Evrópu er ógnað. Eftir aðra heimsstyrjöldina og einkum eftir kalda stríðið var unnið með Rússum að því að tryggja öryggi í Evrópu. Frá og með 22. febrúar 2024 höfum við orðið að tryggja öryggi okkar gegn Rússum. Við verðum einfaldlega að verja okkur. Flestir virðast telja það til góðs að njóta stuðnings Bandaríkjamanna við það verkefni.“

Efasemdir hafa heyrst í Svíþjóð vegna varnarsamningsins þrátt fyrir mikinn stuðning við hann.

„Geymsla kjarnavopna á sænsku landi hefur verið nokkuð til umræðu. Svíar hafa ekki samþykkt hana með samningnum. Í mínum huga er þetta hins vegar ekki eitthvað sem skiptir sérstöku máli í þessu sambandi. Bandaríkjamenn geyma kjarnavopn sín í Evrópu í vel þróuðum og vernduðum herstöðvum. Vopnin eru einnig í flugvélum og þau má flytja á milli staða. Þurfi að setja þau niður á Norðurlöndunum er ekki nauðsynlegt að hafa þau í vopnabúrum í Svíþjóð.“

Granholm segir að sama megi segja um Svía og Norðmenn að meðal þeirra sé fólk sem sé á móti allri samvinnu við Bandaríkin. Það sé andvígt varnarsamningnum án tillits til þess sem í honum stendur.  Almennt sé hins vegar talið að samningurinn efli öryggi Svíþjóðar þegar þjóðin stendur frammi fyrir árásargjörnum Rússum sem ógni og ráðist á nágranna sína eins og birtist greinilega í stríðinu í Úkraínu.

Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í janúar 2023 að hún hefði hafið viðræður um varnarsamning við Bandaríkin. Granholm segir að viðræðurnar hafi ekki vakið almenna athygli. Hann telur að ríkisstjórnin hafi viljað fara sér hægt út á við þar til samningur hefði náðst. Af þessum sökum gagnrýni ýmsir stjórnvöld nú fyrir að standa ekki fyrir opinberum umræðum um samningaviðræðurnar. Staðreynd sé hins vegar að um ýmsa þætti öryggismála sé eðli máls samkvæmt ekki unnt að ræða opinberlega.

Granholm svarar spurningu um hvers vegna Svíar hafi svo hraðar hendur í þessu máli með því meðal annars að vísa til orða forsætisráðherrans og varnarmálaráðherrans um að frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar hafi staða sænskra öryggismála aldrei verið alvarlegri en núna. Það megi ekki missa neinn tíma.

Granholm bendir á að gerð þessa samnings sé ekki eina vísbendingin um hve alvarlegum og föstum tökum sé nú beitt í sænskum öryggismálum.

Með hraði sé unnið að því að auka útgjöld til varnarmála. Árið 2020 hafi verið sett það mark að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Nú sé stefnt á 2% árið 2026 eða í síðasta lagi 2028. Raunar velti menn fyrir sér hvort fara þurfi í 3 til 3,5% með 2% sem lágmark en ekki hámark.

Granholm leggur áherslu á að það net tvíhliða varnarsamninga sem Svíar og aðrar norrænar þjóðir hafa gert við Bandaríkjamenn leiði til þess að líta megi á yfrráðasvæði norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna með nálægum hafsvæðum sem eina strategíska heild við gerð varnaráætlana. Það auðveldi að styrkja fælingarmáttinn til að halda Rússum í skefjum en samningarnir snúist einmitt um að gera það.

Með varnarsamningnum við Svía fær Bandaríkjaher aðgang að 17 sænskum herstöðvum. Niklas Granholm telur að aðeins nokkrar þeirra muni koma hér við sögu. Kallax-flugherstöðin við Luleå skipti til dæmis máli í hánorðri. Muskö-flotastöðun fyrir sunnan Stokkhólm geti hentað bandaríska sjóhernum. Landherinn kunni að hafa áhuga á svæðum í suður- og vesturhluta landsins. Þá geti höfnin í Gautaborg þótt vænleg fyrir liðs- og birgðaflutninga.

Hann rökstyður slíka nýtingu á sænsku landi með þeim orðum að komi til átaka á Norðurlöndum og Eystrasalti telji margir og þeirra á meðal hann sjálfur að þau verði einkum í austri, það er í Finnlandi og Eystrasaltslöndunum við landamæri Rússlands. Þá yrði farið í gegnum Svíþjóð með hergögn og hermenn á leið austur á bóginn. Þetta hafi áhrif á hvernig staðið verði að framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …