Home / Fréttir / Alþjóðleg sérfræðinganefd: Rússneskt flugskeyti grandaði MH17 flugvélinni og 298 manns yfir A-Úkraínu

Alþjóðleg sérfræðinganefd: Rússneskt flugskeyti grandaði MH17 flugvélinni og 298 manns yfir A-Úkraínu

 

Rússnesk Buk-flugskeyti á skotpalli
Rússnesk Buk-flugskeyti á skotpalli

Alþjóðlegir sérfræðingar sendu þriðjudaginn 13. október frá sér skýrslu sem staðfestir að MH17 Malaysian Airlines farþegaflugvélinni var grandað af rússnesku flugskeyti af Buk-gerð yfir austurhluta Úkraínu 17. júlí 2014. Ættingjar hinna 298 manna sem létust þegar vélin fórst krefjast nú vitneskju um hver bar ábyrgð á að flauginni var skotið á loft.

Tjibbe Joustra, formaður alþjóðlegu sérfræðinganefndarinnar, kynnti niðurstöður nefndarinnar á blaðamannafundi í Gilze-Rijen flugherstöðinni í Hollandi. „MH17 splundraðist vegna þess að flugskeyti var sprengt utan við vinstri hlið flugvélarinnar,“ sagði Joustra og bætti við að flugskeytinu hefði verið skotið á loft einhvers staðar á 320 ferkílómetra svæði í austurhluta Úkraínu.

Flugvélin féll til jarðar á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Flestir þeirra sem fórust voru hollenskir ríkisborgarar. Vélin var yfir landsvæði í höndum aðskilnaðarsinna í Úkraínu þegar árásin var gerð á hana.

Í skýrslunni um rannsóknina kemur fram að daginn sem MH17 fórst flugu 160 farþegavélar yfir átakasvæðið í Úkraínu. „Engum datt í hug að hætta steðjaði að almennu farþegaflugi,“ sagði Joustra. Hann sagði þó að full ástæða hefði verið til að loka flugleiðum yfir þessu landsvæði í varúðarskyni. Stjórnvöld Úkraínu hefðu átið það ógert.

Sérfræðingarnir telja að atburðarásin hafi verið svo hröð að áhöfn og farþegar MH17 hafi varla fengið ráðrúm til að átta sig á henni og eigin stöðu, allir hafi misst meðvitund á svipstundu.

Stjórnvöld í Úkraínu og á Vesturlöndum halda því fram að rússneskir hermenn hafi skotið flauginni eða aðskilnaðarsinnar með aðstoð Rússa.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði í Haag þriðjudaginn 13. október að skýrsla sérfræðinganna væri mikilvægt „innlegg“ í sjálfstæða sakamálarannsókn sem snýr að því að finna þann sem bar ábyrgð á árásinni á flugvélina. Hvatti hann til þolinmæði vegna þeirrar rannsóknar.

„Forgangsmál okkar er að finna ódæðismennina og sækja þá til sakar,“ sagði Rutte. Hann bætti við að „ótímabært“ væri að segja eitthvað um hlut Rússa.

Rússneska ríkisfyrirtækið Almaz-Antey sem smíðar Buk-flaugarnar hafnaði þriðjudaginn 13. október niðurstöðunum sem voru kynntar í Hollandi. Yan Novikov forstjóri sagði á blaðamannafundi að í rússneskri skýrslu segði að hefði MH17 fengið á sig Buk-flaug hefði henni verið skotið frá þorpinu Zaroshenske. Rússar segja að þá hafi þorpið verið á valdi Úkraínustjórnar.

Þá sagði forstjórinn að í júlí hefði verið gerð tilraun sem sýndi að flugskeytið kynni að vera  miklu eldra en áður var álitið. Þetta var kynnt nefnd Hollendinga en hún hafði getgáturnar að engu, sagði Novikov.

 

Heimild: dw.de

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …