Home / Fréttir / Alþjóðleg netárás veldur vanda í Svíþjóð

Alþjóðleg netárás veldur vanda í Svíþjóð

Hundruð fyrirtækja um heim allan, þar á meðal verslanakeðjan Coop í Svíþjóð, glímdu laugardaginn 3. júlí við netvanda vegna tölvuárásar á Kaseya, bandarískan framleiðanda forrita fyrir 40.000 aðila. Kaseya tilkynnti fyrirtækið hefði orðið fyrir „þaulskipulagðri netárás“.

Sérfræðingar í netglæpum töldu að hugsanlega stæði REvil að baki árásinni, rússneskur netglæpahringur sem bandaríska alríkislögreglan FBI segir að hafi staðið að baki árásarinnar að stærsta kjötvinnslufyrirtæki heims, JBS, í maí.

Í Svíþjóð neyddist Coop til að loka að minnsta kosti 800 verslunum laugardaginn 3. júlí. Sett voru skilti við verslanirnar þar sem á stóð: „Við höfum orðið fyrir miklum UT-truflunum og kerfi okkar virkar ekki.“ Þá var einnig rof á þjónustu hjá sænsku járnbrautunum og stórri sænskri lyfjaverslanakeðju.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að hann hefði gefið bandarískum löggæslustofnunum fyrirmæli um að rannsaka árásina ofan í kjölinn.

Kaseya vann að því að uppfæra forrit sitt en í stað þess að viðskiptavinir fyrirtækisins fengju nýjustu uppfærsluna fengu þeir gíslatökuforrit frá REvil. Sérfæðingar segja að með þessari árás hafi netglæpamennirnir gengið skrefi lengra en áður til þessa hafi REvil sérhæft sig í því að stela netföngum og lykilorðum til að komast ólöglega inn í tölvukerfi.

Kaseya tilkynnti föstudaginn 2. júlí að athugun færi fram innan fyrirtækisins á hugsanlegri netárás. Voru viðskiptavinir hvattir til að gera umsamdar öryggisráðstafanir til varnar eigin kerfum.

Fred Voccola, forstjóri Kaseya, tilkynnti laugardaginn 3. júlí að innan við 40 viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu orðið fyrir skaða vegna árásarinnar. Sum fyrirtækin sem um ræðir þjónusta tugi eða jafnvel hundruð annarra fyrirtækja.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …