Home / Fréttir / Alþjóðleg einangrun Rússa eykst

Alþjóðleg einangrun Rússa eykst

Salur Evrópuráðsþingsins í Strassborg.

Rússland sætir æ harðari gagnrýni og einangrun á alþjóðavettvangi vegna framgöngu stjórnvalda og hers landsins í Úkraínu. Ákvörðun Vladimirs Pútins Rússlandsforseta 30. september 2022 um innlimun á fjórum héruðum Úkraínu í Rússland og svokallaðar þjóðaratkvæðagreiðslur þar hafa orðið til að sameina fulltrúa ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og á þingi Evrópuráðsins í andstöðu við Rússa.

EBS-ríkin fluttu tillögu á allsherjarþinginu um ólögmæti innlimunar héraðanna fjögurra í Rússland. Á þinginu greiddu fullrúar 143 ríkja atkvæði með tillögunni sem sérfræðingar segja langt umfram það sem diplómatar höfðu áður talið líklegt. Þeir reiknuðu með stuðningi 125 til 130 ríkja. Innlimunin hafi hins vegar neytt þau „á girðingunni“ til að taka afstöðu.

Þá hafi það aukið stuðning við tillöguna að fyrir atkvæðagreiðsluna miðvikudaginn 12. október hafi fréttir borist af grimmdarlegum flugskeytaárásum Rússa á almenna borgara og grunnvirki í Úkraínu.

Fulltrúar 143 ríkja greiddu tillögunni atkvæði, fimm voru á móti (Belarús, Níkaragva, Norður-Kórea, Sýrland og Rússland) og 35 sátu hjá þ. á m. Kína, Indland, Pakistan og Suður-Afríka.

Þing Evrópuráðsins sem situr nú í Strassborg samþykkti með 99 atkvæðum og einni hjásetu (Tyrkland) að hvetja aðildarríki ráðsins til að lýsa stjórn Rússlands sem „hryðjuverkastjórn“.

Í ályktun þingsins er tilraun Pútins til að innlima héruðin fjögur í Úkraínu í Rússland harðlega fordæmd og svonefndar þjóðaratkvæðagreiðslur í héruðunum eru sagðar „andstæðar alþjóðalögum“ og „einskis virði, án nokkurra lagalegra eða stjórnmálalegra áhrifa“.

Þingið hvatti einum rómi til þess að komið yrði á fót „heildstæðu kerfi“ til að unnt yrði að sækja rússneska ríkið og forystusveit þess til saka fyrir áras og brot á mannréttindum og mannúðarlögum. Því yrði meðal annars hraðað að koma á fót sérstökum dómstóli til að fjalla um glæpsamlega árás á Úkraínu.

Á það er bent í ályktuninni að árás ríkis sem á fasta setu í öryggisráði SÞ sé aðför að alþjóðlegum stjórnarháttum og kalli á umbætur á öryggisráðinu. Í þessu sambandi er einnig vakin athygli á að ítrekaðar hótanir rússneskra ráðamanna um beitingu kjarnavopna brjóti í bága við skyldur kjarnorkuveldis með fast sæti í öryggisráðinu fyrir utan að þær séu „fyrirlitlegar og óskammfeilnar“.

Hvetur þingið til þess að um þetta verði rækilega fjallað á af æðstu ráðamönnum Evrópuráðsríkjanna þegar þeir koma saman til fjórða fundar síns.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …