Home / Fréttir / Alþingismenn ræða öryggis- og varnarmál

Alþingismenn ræða öryggis- og varnarmál

 

NATO-floti á N-Atlantshafi.
NATO-floti á N-Atlantshafi.

Mánudaginn 5. nóvember var sérstök umræða á alþingi undir fyrirsögninni öryggis- og varnarmál. Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG var málshefjandi og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í umræðunni ásamt þingmönnum úr öllum þingflokkum.

Í upphafsræðu sagði Rósa Björk tilefni umræðunnar mega rekja til varnaræfingar NATO hér á landi og í Noregi í október auk þess sem hún nefndi skýrslu Þjóðaröryggisráðs sem kom út 1. nóvember.

Þá sagði Rósa Björk meðal annars:

„Við þessar aðstæður þarf skýra sýn. Stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum þarf að vera skýr og markviss. Vissulega þarf að laga sig að breyttri stöðu og að breytilegu valdajafnvægi milli valdamestu ríkja heims, sér í lagi vegna landfræðilegrar legu Íslands en ekki síður — og kannski enn frekar — vegna stöðu okkar á alþjóðavettvangi sem sjálfstæðrar þjóðar.“

Hér verða birtar tilvitnanir í ræður eins þingmanns úr hverjum flokki.

Birgir Þórarinsson í Miðflokknum:

Skilgreiningin á því hvað telst til öryggismála hefur verið að breytast mjög og náð til fleiri þátta en áður. Það hvílir rík skylda á stjórnvöldum að skilgreina vel mögulegar ógnir svo bregðast megi við þeim með viðeigandi og skipulögðum úrræðum.

Ein af þeim ógnum sem að okkur steðja og hefur vaxið mjög um hrygg á allra síðustu árum eru falskar fréttir á netinu, falskar fréttir er beinast að sérstökum ríkjum eða hagsmunum ríkja. Þessi sérstaka ógn er ekki nefnd í þjóðaröryggisstefnunni. Brýnt er að bæta úr því að mínu mati við endurskoðun stefnunnar sem á að fara fram eftir rúm tvö ár. Ég ræddi þessa nýju ógn hér á síðasta þingi við hæstv. utanríkisráðherra. Fréttir þessar eru af margvíslegum toga og eiga það gjarnan sameiginlegt að tilgangur þeirra er að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni, innlenda sem erlenda, þess ríkis er þær beinast að. Þær geta varðað viðskiptahagsmuni, kosningar og ímynd ríkis út á við, svo fátt eitt sé nefnt.

Á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld markvisst unnið gegn áhrifum slíkra frétta með því að setja á laggirnar sérstök teymi sem hafa það hlutverk að finna slíkar fréttir, einkum á samskiptamiðlunum og bregðast við þeim. Að berjast gegn fölskum fréttum er þjóðaröryggismál og mikilvægt mál í hagsmunagæslu (Forseti hringir.) ríkja á alþjóðavettvangi. Mál sem við Íslendingar verðum að taka alvarlega.

Þórunn Egilsdóttir í Framsóknarflokknum:

Allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 hefur Ísland verði aðildarríki. Aðildin ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hefur því verið hornsteinn íslenskra öryggis- og varnarmála allan þennan tíma.

Samstarf við okkar nánustu bandalags- og vinaríki hefur gert það að verkum að uppbygging varnargetu landsins hefur ekki orðið Íslandi ofviða. Sem aðildarþjóð getum við ekki þó verið eingöngu í hlutverki þiggjandans heldur ber okkur að taka þátt í víðtæku samstarfi sem fram fer á vettvangi bandalagsins og leggja okkar af mörkum með ýmsu móti. Við tökum, íslenska þjóðin, vissulega þátt í starfi NATO á grundvelli herleysis með þátttöku í pólitísku starfi, með rekstri varnarmannvirkja bandalagsins á Íslandi, með fjármögnun og með því að senda borgaralega sérfræðinga til starfa á vegum bandalagsins.

Það að við skyldum samþykkja þjóðaröryggisstefnu árið 2016 var mjög mikilvægt skref því að hún hefur verið leiðarljós í samstarfi Íslands á sviði öryggis- og varnarmála og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, eins og ég kom að áðan.

Smári McCarthy í Pírötum:

Þar má helst nefna rafrænar árásir á Ísland sem eru ekki bara mjög líklegar heldur hafa gerst nú þegar. Þær eru misalvarlegar, flestar sem betur fer ekki mjög alvarlegar í þjóðaröryggislegu tilliti. En efri mörkin eru talsvert mikil. Ég held að þetta sé ein stærsta þjóðaröryggisógnin okkar

Ólafur Ísleifsson í Flokki fólksins:

Ég vil leggja áherslu á að með aðildinni að NATO getum við áfram stuðlað að öryggi í Evrópu líkt og bandalaginu hefur tekist í tæp 70 ár. Í þessu sambandi fagna ég nýlegri æfingu NATO á norðurslóðum en áratugir eru liðnir frá því að slík æfing fór síðast fram

Þá er rétt að athuga að NATO, og einungis NATO, tryggir ómetanlega þátttöku Bandaríkjanna í öryggismálum Evrópu. Eining, árvekni og afl NATO tryggir öryggi í Evrópu eins og nauðsynlegt er, m.a. í kjölfar íhlutunar Rússa í Úkraínu og versnandi samskipta á alþjóðavísu sem eru áhyggjuefni þótt við Íslendingar höfum margvíslega góða reynslu af gagnkvæmum samskiptum við Rússland og forvera þess.

Einkum og sér í lagi ætti okkur í þessu samhengi að vera annt um öryggi vina okkar og bandamanna í Eystrasaltsríkjunum sem reiða sig á NATO og Bandaríkin til að tryggja öryggi sitt við óvissar aðstæður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í Viðreisn:

Ég er óþreytandi að draga fram að hvert það skref sem við Íslendingar höfum stigið í alþjóðamálum, í alþjóðasamstarfi — hvort sem er í gegnum NATO, EES-samninginn, Sameinuðu þjóðirnar, EFTA-samstarfið — hefur verið tekið til að styrkja fullveldi landsins. Það hefur eflt okkur. Hitt er síðan annað mál hvernig við ætlum að vera sem þátttakendur. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við séum raunsæ, að við áttum okkur á því að að friður okkar og frelsi er ekki ókeypis af því að einhver annar er að passa okkur. Við verðum líka að axla ábyrgð. Hið opinbera verður að ábyrgjast öryggi þjóðarinnar og það verður gert í fullu samstarfi og í fullri þátttöku okkar Íslendinga á alþjóðavísu, hvort sem er í gegnum NATO eða aðrar mikilvægar stofnanir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í Sjálfstæðisflokki:

Staðan í alþjóðamálum er oft og tíðum flókin og það eru ýmis mál sem skipta okkur meira máli en áður. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður sem við sjáum ekki alltaf fyrir. Breytt öryggisumhverfi heimsins felur í sér að setja þarf öryggis- og varnarmál í forgang; starf þjóðaröryggisráðs, samstarf Norðurlandanna, aukin framlög í málaflokkinn og fleira kemur þar inn. NATO hefur auðvitað m.a. brugðist við breyttum aðstæðum í heiminum með því að beina athygli sinni og sjónum í vaxandi mæli til okkar heimshluta. Við höfum einnig aukið framlög okkar til varnarmála og þurfum að halda áfram á þeirri braut og leggja áherslu á aukna þátttöku í borgaralegum verkefnum innan Atlantshafsbandalagsins en fjárlögin bera það með sér í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Samstaða um þessi mál er lykilatriði. Virk þátttaka okkar í öryggismálum, líkt og annarra landa Evrópu, er mikilvæg og þar getum við lagt mikið til málanna.

Oddný G. Harðardóttir í Samfylkingu:

Netárásir geta lamað heilu samfélögin og afleiðingarnar geta verið bæði beinar og óbeinar í gegnum falsfréttir. Almenningur veit að netnotkun fylgja hættur en ekki alltaf hvar þær leynast og hvað sé til ráða. Vitundarvakning um það þarf að eiga sér stað og samkvæmt nýútkominni skýrslu þjóðaröryggisráðs, er stefnt að því að auka samvinnu um upplýsingamiðlun og vitundarvakningu á þessu sviði, á vettvangi netöryggisráðs með ýmsum hagsmunaaðilum og það er vel.

Netárásir eru hernaður á friðartímum. Vegið er úr launsátri og árásirnar geta verið hvaðan sem er í heiminum. Netið er alþjóðlegt og því skiptir alþjóðlegt samstarf miklu máli. Þar þurfum við Íslendingar að vera virkari þátttakendur.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …