Home / Fréttir / Almennir borgarar og grunnvirki skotmörk Rússa

Almennir borgarar og grunnvirki skotmörk Rússa

Fyrsta hjálp eftir dróna-árás.

Að morgni mánudags 17. október voru fjórar dróna-árásir gerðar á Kyív, höfuðborg Úkraínu. Rússar beittu „sjálfsmorðs-drónum“ frá Íran gegn íbúðahverfi og á skotmark nærri járnbrautarstöðinni í borginni að sögn Úkraínumanna. Mjög öflugar sprengingar heyrðust í borginni einni viku eftir að Rússar hófu sprengjuárásir á hana. Talið er að minnst átta manns hafi týnt lífi í Kyív og annars staðar í landinu vegna þessara árása.

Þennan sama morgun réðust Rússar einnig á „orkuvirki“ í þremur héruðum Úkraínu, þar á meðal í höfuðborginni en einnig í Dnipropetrovsk héraði (mið-austurhluta landsins) og í Soumíh (í norðaustur hlutanum).

Úkraínustjórn hvatti ESB til þess mánudaginn 17. október að herða refsiaðgerðir gegn Írönum. Íranir ættu ekki refsilaust að komast upp með að sjá Rússum fyrir drónum til árása í Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti segir á samfélagsmiðlum að vissulega geti óvinur Úkraínumanna ráðist á borgir þeirra en honum takist ekki að brjóta þá á bak aftur.

Mykhajlo Podoliak, sérlegur ráðgjafi Zelenskíjs, hvatti á Twitter til þess að Rússar yrðu útilokaðir frá G20 ríkja leiðtogafundinum sem haldinn verður í Indónesíu. Ekki væri unnt fyrir leiðtogana að setjast við sama borð og sá sem gefur fyrirmæli um árásir á mikilvæg samfélagsleg grunnvirki og skipuleggur almenna herkvaðningu til að hlaða fleiri líkum á víglínuna.

Volker Türk, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), hvatti til þess að segl yrðu dregin saman. Starfsmenn hans á staðnum þar sem dróna-árásirnar eru gerðar hvettu eindregið til þess að þeim yrði ekki beint að borgaralegum grunnvirkjum og þéttbýlum svæðum.

Astana-fréttastofan skýrði frá því föstudaginn 14. október að Vladimir Pútin teldi flugskeytaárásirnar hafa þjónað tilgangi sínum og ekki væri þörf á að halda þeim áfram „að sinni“.

Rússar eiga undir högg að sækja á helstu vígstöðvum í Úkraínu. Þeir hafa verið á undanhaldi í norðri, austri og suðri síðan í september.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …