Home / Fréttir / Albert Jónsson: Vægi GIUK-hliðsins minnkar

Albert Jónsson: Vægi GIUK-hliðsins minnkar

Bandarískir tundurspillar  og birgðaskip í Barentshafi.
Bandarískir tundurspillar og birgðaskip í Barentshafi.

Albert Jónsson sendiherra birti fimmtudaginn 28. maí pistil á vefsíðu sinni https://albert-jonsson.com í tilefni af siglingu bandarískra tundurspilla og breskrar freigátu inn á Barentshaf í byrjun maí. Frá ferðum skipanna hefur verið sagt hér á vefsugerc33.sg-host.com Albert segir:

„Yfirlýst markmið með leiðangrinum í Barentshaf var að sýna áhuga Bandaríkjanna og Bretlands á norðurslóðum, undirstrika frelsi til siglinga þar, sýna flaggið eins og sagt er, sem og að æfa og þjálfa við aðstæður í norðri. Skipin sigldu til baka úr Barentshafi 8. maí.

Leiðangurinn felur í sér enn eina vísbendingu á undanförnum árum um hvernig hernaðarleg þungamiðja á Atlantshafi færist miklu norðar en áður. Jafnframt breytist hernaðarleg staða Íslands og hlutverk, þar á meðal varðandi eftirlit og kafbátaleit með flugvélum. Eftirliti yfir norður Noregshafi og Barentshafi verður einkum sinnt frá norður Noregi en einnig virðist Skotland hafa hlutverki að gegna.

Vægi Íslands og GIUK-hliðsins svonefnda (hafsvæðin milli Grænlands, Íslands, Færeyja, og Bretlands) minnkar vegna tveggja stórra áhrifaþátta, sem færa þungamiðjuna norðar. Í fyrsta lagi er Norðurfloti Rússlands of lítill til að ógna hagsmunum NATO á úthafinu. Engar líkur eru á að það breytist. Þvert á móti. Norðurflotinn kemur lítið út á Atlantshaf, enda verður hann að beina takmörkuðum styrk að því að sinna forgangsverkefninu, sem er að verja mikilvægan hluta kjarnorkuherstyrks Rússlands í kabátum i Barentshafi. Í öðru lagi hafa komið til sögu hjá Norðurflotanum langdræg vopn sem annars vegar valda því að hann þarf miklu síður að sækja út á Atlantshaf og hins vegar því að þýðing Barentshafs og norður Noregshafs eykst verulega fyrir NATO (um þetta var ítarlega fjallað hér á vefsíðunni í pistli 29. janúar 2020). […]

Norðurflotinn [rússneski] kemur því í litlum mæli út á Atlantshaf. Kafbátar hans hafa verið þar í aðeins örfá skipti á undanförnum árum. Ofansjávarflotinn er ekki úthafsfloti nema að litlu leyti. Í honum eru aðallega skip af smærri gerðum til verndar heimahöfum. Af þessum sökum má ætla að Norðurflotinn geri fremur ráð fyrir framvörnum Barentshafs í norðanverðu Noregshafi en við GIUK-hliðið. Til marks um það er að í ágúst 2019 æfði hann á því svæði vestur af Tromsö. Þá fór stærsta kafbátaæfing hans í mörg ár fram á svipuðum slóðum í október-nóvember það ár og reyndar einnig enn norðar í “hliði” milli Bjarnareyjar og norður Noregs. Bresk-bandaríska æfingin 1. maí, sem fyrr var getið, var einmitt haldin í norður Noregshafi vestur af Tromsö.

Annað sem veldur því að hernaðarleg þungamiðja færist langt norður fyrir Ísland og GIUK hliðið er að Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun langdrægar stýriflaugar af svonefndri Kalibr gerð í herskipum og kafbátum. Það mun auka verulega hernaðarþýðingu norðurslóða, gefa þeim nýtt og stóraukið hlutverk varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu. Það ræðst af því að nýju flaugarnar geta náð til skotmarka á meginlandinu frá skipum og kafbátum í norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Það hefði mikla hernaðarlega þýðingu færi svo ólíklega að til átaka kæmi milli NATO og Rússlands. Jafnframt eykst mikilvægi þessara svæða fyrir NATO sem þyrfti í átökum enn frekar en áður að geta sótt inn á þau til þess meðal annars að ná til herskipa og kafbáta sem bæru stýriflaugarnar. […]

Ísland gegnir áfram almennu hlutverki varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og stuðning við sókn NATO norður fyrir GIUK-hliðið og upp Noregshaf í hugsanlegum átökum á norðurslóðum, en þungamiðja aðgerða yrði langt fyrir norðan landið af fyrrnefndum ástæðum. Viðbúnaður á Íslandi yrði miklu minni á hættutíma eða í átökum, en gert var ráð fyrir í kalda stríðinu. Það sést meðal annars af forsendum í áætlunum bandaríska flughersins um viðhald og endurnýjun flughlaða á Keflavíkurflugvelli.

Það er áhugavert frá íslensku sjónarhorni að flugvélar frá Keflavíkurflugvelli tóku hvorki þátt í æfingunni í norður Noregshafi né leiðangrinum í Barentshaf, heldur að því er virðist flugvélar frá stöðvum á Bretlandi og í Noregi (reyndar hafa bandarískar eftirlits og kafbátaleitarflugvélar ekki verið á Keflavíkurflugvelli á þessu ári frá því í fyrrihluta janúar).“

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …