
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Washington og Moskvu, spyr í nýrri grein á vefsíðu sinni https://albert-jonsson.com/ hvort það sé aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum. Hann svarar spurningunni í greininni sem hefst á þessum útdrætti:
„Svarið við spurningunni er: Já, að vissu marki. Þá er átt við hvernig vaxandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur náð til norðurslóða. Skýr merki þessa sáust í ummælum bandarískra ráðamanna í heimsóknum til Íslands á árinu 2019 og uppástungu sem Bandaríkjaforseti gerði í ágúst um að Bandaríkin keyptu Grænland af Dönum.
Hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna og Rússlands á norðurslóðum eru í grunninn hinir sömu og þeir hafa verið í áratugi og lúta að kjarnorkujafnvæginu milli þessara tveggja stórvelda.
Aðeins einu sinni á árinu 2019 virðist rússneskur kafbátur hafa komið út á Atlantshaf og á svæði í námunda við Ísland. Lítil rússnesk hernaðarleg umsvif úti á Atlantshafi eru í samræmi við undanfarin ár og reyndar allan tímann frá falli Sovétríkjanna enda er Norðurfloti Rússlands miklu minni en sá sovéski var. Við það bætist að forgangshlutverk flotans er í norðurhöfum – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi en ekki úti á Atlantshafi.
Mikilvæg þróun er að hefjast sem mun þegar fram í sækir auka hernaðarþýðingu norðurslóða. Það stafar af því að langdrægar stýriflaugar sem Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun munu væntanlega á næsta áratug eða svo gefa norðurslóðum nýtt og aukið hlutverk og þá varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu.
Á sama tíma mun hernaðarleg þungamiðja á Norður Atlantshafi færast enn norðar og fjær Íslandi en þegar er orðið. Það ræðst af því að nýju flaugarnar geta náð til skotmarka á meginlandinu frá skipum og kafbátum í norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Jafnframt eykst verulega mikilvægi þessara svæða fyrir NATO sem í átökum þyrfti að geta sótt inn á þau til að ná til herskipa og kafbáta sem bæru stýriflaugarnar .
Sem fyrr mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum í hugsanlegum átökum þó þau færu aðallega fram langt fyrir norðan landið.
Hernaðarumsvif á vegum Kína eru enn ekki til staðar á norðurslóðum. Hins vegar hefur aukinn áhugi Kínverja á svæðinu birst í áheyrnarþátttöku í starfi Norðurskautsráðsins og þeir hafa mótað sérstaka norðurslóðastefnu.
Efnahagsleg umsvif Kínverja á norðurslóðum hafa vaxið verulega á undanförnum örfáum árum en eru næstum eingöngu í norður Rússlandi vegna stóraukinnar vinnslu jarðefnaeldsneytis þar. Kínverjar eru fjárfestar í þessari vinnslu og stærstu kaupendurnir. Áhugi og umsvif Kínverja á norðurslóðum eiga ef að líkum lætur eftir að vaxa vegna aukins aðgengis að náttúruauðlindum og frekari opnunar siglingaleiða við norðurströnd Rússlands í kjölfar hlýnunar Jarðar.
Leiði hlýnunin til þess að siglingar hefjist þvert yfir Norðurskautið – sem að sumra mati gæti orðið um miðja öldina – mun það valda grundvallarbreytingu á þýðingu norðurslóða. Upp úr því væri viðbúið að samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu kæmi að fullu fram á norðurslóðum“