Home / Fréttir / Albert Jónsson: Ísland hefur strategíska þýðingu – en miklu minni en áður

Albert Jónsson: Ísland hefur strategíska þýðingu – en miklu minni en áður

Albret Jónsson gengur í ræðustól eftir kynningu Björns Bjarnasonar. Mynd Krsitinn Valdimarsson.
Albret Jónsson gengur í ræðustól eftir kynningu Björns Bjarnasonar. Mynd Krsitinn Valdimarsson.

 

Fjölmenni sótti fund Varðbergs í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í hádegi fimmtudags 12. apríl þegar Albert Jónsson, fyrrv. sendiherra, flutti fyrirlestur um utanríkisstefnu Rússlands, áhrif á norðurslóðir og stöðu Íslands.

Í upphafi máls síns vitnaði Albert í heimskunna bandaríska diplómatann George heitinn Kennan sem lagði grunn að stefnu Vesturlanda í kalda stríðinu um að halda aftur af útþenslustefnu Sovétríkjanna. Rússum hefði löngum verið hugstætt að landfræðilegar aðstæður þeirra væru þannig að erlendir herir ættu greiða leið inn í land þeirra. Þar mætti nefna Mongóla, Napóleon og Hitler. Vegna þessa væri megináhersla í stefnu Rússa að drottna yfir nágrönnum sínum til að verjast óvinum. Þá ýtti stefnan undir miðstjórnarvald og einræði, annars yrði öryggið ekki tryggt. Kommúnistar hefðu fylgt þessari stefnu og á tíma Stalíns hefði hún verið framkvæmd á grófan hátt, hugmyndafræðin hefði boðað að átök milli ríkja kommúnisma og kapítalisma væru óhjákvæmileg. Í anda hennar hefði verið mótuð stefna um beitingu kjarnorkuvopna og Vesturlönd sett sér það markmið að halda Sovétríkjunum í skefjum, containment.

Albert sagði að þessa sömu þætti mætti enn greina í utanríkisstefnu Rússa. Nú teldu Moskvumenn nauðsynlegt að ráða yfir áhrifasvæði sem næði til nágrannaríkja og gengi því gegn sjálfstæði þeirra. Nefndi hann sérstaklega Georgíu, Úkarínu og Moldóvu. Moskvustjórnin væri drottnunargjörn og árásargjörn og gengi gegn grundvallarreglum og alþjóðalögum. Þetta leiddi óhjákvæmilega til árekstra við Vesturlönd. Taldi hann Rússa þó ekki líta á Eystraríkin sem áhrifasvæði sitt. Þá væri rík áhersla á að tryggja öflugt ríkisvald í Rússlandi til að gæta öryggis lands og þjóðar, þar á meðal gegn erlendum undirróðri.

Albert rakti hvernig þessir djúpstæðu áhrifaþættir í rússneskri sögu urðu æ meira ráðandi í utanríkisstefnu Rússlands á árunum 2003 til 2014. Hafa yrði í huga að litið væri á ógn við ríkisvaldið í Rússlandi sem ógn við tilvist Rússlands. Þess vegna yrði ekki kvikað í Úkraínu þrátt fyrir viðskiptaþvinagnir, þær hefðu hins vegar áhrif á aðra þætti og veiktu rússneska efnahagskerfið. Rússar næðu sér ekki á strik efnahagslega án samvinnu við vestrænar þjóðar. Rússland væri ekki efnahagslegt stórveldi og aðeins svæðisbundið herveldi væri litið framhjá kjarnorkuvopnunum.

Albert Jónsson í ræðustól. Mynd: Krsitinn Vakdimarsson
Albert Jónsson í ræðustól. Mynd: Krsitinn Vakdimarsson

Hann sagði að hernaðaríhlutun Rússa í Sýrlandi árið 2015 hefði að miklu leyti ráðist af sýn Rússa á alþjóðakerfið og hvernig Vesturlönd, einskum Bandaríkin, reyndu að skáka Rússlandi. Þá væru rússneskir ráðamenn andvígir öllum afskiptum annarra ríkja af því hverjir stjórnuðu einstökum ríkjum – þeir hugsuðu þar um eigin hag.

Albert sagði að Trump-stjórnin í Bandaríkjunum hefði „ekki breytt neinu grundvallaratriði í stefnunni gagnvart Rússlandi“ þvert á vonir margra í Moskvu.

Albert minnti á að þjóðarbúskapur Rússa stæði aðeins undir broti af heimsframleiðslunni.  Hann væri álíka stór og búskapur Ástrala og Spánverja. Í Rússlandi byggju 140 milljónir manna sex sinnum fleiri en Ástralir og rúmlega þrisvar sinnum fleiri en Spánverjar. Hagvöxtur í Rússlandi hefði aðeins verið um 1% á ári undanfarin 10 ár og engar líkur væru á að hann batnaði.

Albert sagði að norðurslóðir hefðu vaxandi þýðingu fyrir Rússa vegna olíu- og gasvinnslu sem myndi aukast. Við endurnýjun rússneska hersins hefði tvennt forgang: (1) rík áhersla á landherinn vegna ítaka á áhrifasvæðunum; (2) endurnýjun og öryggi kjarnorkuheraflans, þar kæmu norðurslóðir til sögunnar. Rússneskum ráðamönnum væri mikið í mun að viðhalda kjarnorkuheraflanum – hann bætti fyrir veikleika veldis þeirra að öðru leyti. Hann væri mikilvægasta forsenda þess að áfram yrði litið á Rússa sem stórveldi og þeim sýnd virðing á alþjóðavísu, einkum af hálfu Bandaríkjamanna.

Um 40% langdrægra kjarnavopna Rússa væru í eldflaugakafbátum og þar af um 80% í kabátum Norðurflotans. Þá þjónuðu flugvellir á Kóla-skaga tveimur gerðum flugvéla sem geta flutt kjarnavopn og þær sæjust stundum í nágrenni Íslands.

Albert sagði að „alvarlegur hættutími í alþjóðamálum“ gæti leitt til aukins hernaðarlegs viðbúnaðar og spennu, jafnvel átaka á norðurslóðum vegna lykilhagsmuna Rússa þar. Norðurfloti þeirra mundi reyna að koma í veg fyrir að herskip, kafbátar og flugvélar Bandaríkjahers og annarra NATO-ríkja sæktu norður fyrir GIUK-hliðið (hafsvæðin frá Grænlandi, um Ísland og Færeyjar til Bretlands) og um Noregshaf í átt að Norður-Noregi, Kóla-skaga og Barentshafi.

Sókn NATO-ríkjanna norður á bóginn mundi njóta stuðnings herflugvéla frá Íslandi. Einnig yrði frá Íslandi fylgst með GIUK-hliðinu til að finna rússneska kafbáta sem kynnu að sigla til suðurs til að ógna siglingaleiðum sunnar á Atlantshafi.

„Þetta væri í grófum dráttum líkleg sviðsmynd á mjög alvarlegum hættutímum og í stórstyrjöld, en allt slíkt er spekúlatívt eðli málsins samkvæmt. Ég undirstrika það,“ sagði Albert.

Áhugi Bandaríkjaflota á okkar heimshluta hefði greinilega aukist eins og sjá mætti af aukinni viðveru bandarískra kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli þótt ferðir rússneskra kafbáta í nágrenni landsins virtust enn fátíðar. Hér virtist einkum um þjálfun og æfingar að ræða, Bandaríkjamenn stefndu ekki að fastri viðveru.

Undir lok ræðu sinnar sagði Albert:

„Líkur á svo alvarlegum hættutíma milli Bandaríkjanna og Rússlands  að hann nái til kjarnavopna í norðurhöfum virðast almennt ekki miklar. Þetta er fjarlægur möguleiki af því það eru ekki til staðar þeir hagsmunir og hernaðarlegu stellingar sem til þyrfti – nema ef til vill í Sýrlandi vegna návígis og hættu á mistökum og árekstrum. […]

Norðurslóðir hafa grundvallarþýðingu fyrir Rússland vegna kjarnorkuhagsmuna þess. Ísland hefur því strategíska þýðingu en aðra þýðingu og miklu minni en áður, enda aðstæður allar mjög ólíkar.

Það er þó áhugavert að hernaðarlegu atriðin eru, hvað norðurhöf varðar í aðalatriðum hin sömu og í kalda stríðinu þótt aðstæður hafi að öðru leyti gerbreyst.“

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …