Albanska ríkisstjórnin hefur hafnað hugmyndum um að Evrópusambandið opni miðstöð fyrir hælisleitendur í Albaníu.
Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, sagði að tillaga um þetta efni yrði ekki samþykkt af stjórn sinni jafnvel í skiptum fyrir aðild að ESB.
Hann tók fram að sér þætti óverjandi að fallast á hugmynd sem fæli í sér að komið yrði fram við hælisleitendur eins og þeir væru óvelkominn eiturúrgangur. Rama áréttaði að Albanir vildu eiga samstarf við ESB um lausn sameiginlegra evrópskra verkefna en það væri ekki á þeirra einna valdi að greiða úr þeim. Hann lýsir hugsanlegri ákvörðun um miðstöð hælisleitenda sem „hættulegri“.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, og Ítalinn Antonio Tajani, forseti ESB-þingsins, höfðu lagt til að komið yrði á fót lokuðu svæði fyrir hælisleitendur á Balkanskaga.
Í aðdraganda fundar leiðtogaráðs ESB sem hefst fimmtudaginn 28. júní gaf framkvæmdastjórn ESB grænt ljós með fyrirvörum á aðildarviðræður við Albaníu og Makedóníu. Til að skriður komist á viðræður fulltrúa ESB og landanna verða stjórnvöld þeirra að grípa til víðtækra aðlögunar-aðgerða.
Mikil mótmæli hafa undanfarið verið í Tirana, höfuðborg Albaníu, gegn Edi Rama og stjórn hans sem sökuð er um spillingu og tengsl við mafíuna. Lulzim Basha, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir stjórnina og starfshætti hennar helsta þröskuldinn á leið Albaníu inn í ESB.