Home / Fréttir / Albanir hugsanlega bjargvættir Merkel í deilunni við Seehofer

Albanir hugsanlega bjargvættir Merkel í deilunni við Seehofer

Farand- og flóttafólk á leið til Norður-Evrópu.
Farand- og flóttafólk á leið til Norður-Evrópu.

Albanir eru sagðir hafa gefið til kynna að þeir séu fúsir til að leyfa að komið verði á fót miðstöðvum  í landi sínu fyrir fólk sem leitar hælis innan ESB. Verði þetta léttir það Angelu Merkel Þýskalandskanslara róðurinn og ætti að auðvelda henni að ná samkomulagi við Horst Seehofer, innanríkisráðherra og leiðtoga CSU, um stefnuna í útlendingamálum.

Leggi Albanir til landsvæði fyrir ESB-hælisleitendamiðstöðvar félli það að hugmyndum sem Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, hreyfðu nýlega um að koma á fót slíkum móttökumiðstövum í Evrópu en utan ESB.

Peter Launsky-Tieffenthal, talsmaður austurrísku ríkisstjórnarinnar, sagði við þýsku fréttastofuna DW að rætt væri um stöðvar af þessu tagi við fulltrúa Albaníu og annarra landa.

Endri Fuga, ráðgjadi Edis Rama, forsætisráðherra Albaníu, neitaði þó að nokkrar slíkar viðræður hefðu farið fram. Sama gerði Fatmir Xhafaj, innanríkisráðherra Albaníu. Stjórnarandstaðan í Albaníu heldur því hins vegar fram að ríkisstjórnin vilji opna slíkar miðstöðvar í von um að það flýti fyrir ESB-aðildarferli landsins.

Albanía er á leið sem hælisleitendur fara um Balkanskaga úr suðri og landið liggur einnig að Miðjarðarhafi. Í hafnarborginni Durres er rými og aðstaða til að skrá og hýsa mikinn fjölda einstaklinga sem reynir að sigla yfir Miðjarðarhaf. Starfsmenn og skip á vegum evrópsku landamærastofnunarinnar Frontex mundu fylgja hælisleitendunum til Durres. Eftir komuna til Albaníu mætti flytja þá sem ekki fengju hæli til baka en hinum yrði dreift til ólíkra ESB-landa.

Vegna þess að Albanía er utan ESB gilda ekki reglur Schengen um opin landamæri þar. Þá gilda Dublin-reglurnar ekki heldur í Albaníu. Landið er hins vegar í NATO og þar er verið að opna miðstöð á vegum NATO gegn hryðjuverkum. Fjallhryggur við norður-landamæri Albaníu myndar náttúrulega hindrun gagnvart ESB-svæðinu.

Albanir hafa öðlast mikla reynslu af því að hýsa og hugsa um flóttamenn. Í stríðinu á Balkan-skaga 1998 og 1999 tóku Albanir á móti allt að einni milljón manna frá Kosóvó. Þegar flótta- og farandfólk streymdi til Evrópu árið 2015 juku Albanir til muna aðstöðu í landi sínu til að taka á móti þessu fólki. Aðstaðan hefur ekki verið mikið notuð fram til þessa. Í albönskum fjölmiðlum segir að um þessar mundir séu aðeins nokkur þúsund hælisleitenda í landinu.

Neven Crvenkovic, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, segir rétt að frá árinu 2017 hafi Albanir tvöfaldað aðstöðu sína til að hýsa og afgreiða hælisleitendur. Vegna óska um aðild að ESB fullnægir albanska ríkið nú mörgum mannúðar- og mannréttindakröfum sambandsins. UNCHR segir raunar í skýrslu að Albanir fari vel með hælisleitendur.

Á kortinu má sjá að hjáleið í norður liggur um Albaníu eftir lokun Balkanleiðar og lokun landamæra einstakra ríkja.
Á kortinu má sjá að hjáleið í norður liggur um Albaníu eftir lokun Balkanleiðar og lokun landamæra einstakra ríkja.

Xhafaj, innanríkisráðherra Albaníu, hefur undanfarið heimsótt höfuðborgir ýmissa ESB-ríkja og rætt meðal annars um útlendingavandann. Hann var til dæmis í Berlín fimmtudaginn 21. júní.

Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands og leiðtogi CSU, sagði á síðasta fundi sínum með Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, að hann styddi hugmyndina um móttökustöðvar fyrir utan ESB.

Yrði samið við Albani mundi það minnka spennu í samskiptum Seehofers við Angelu Merkel kanslara. Samningur um þetta efni væri í samræmi við óskir Seehofers um að hælisumsóknir yrðu lagðar fram í stöðvum utan ESB en á hinn bóginn hefði ESB auga með þeim. Ákvörðun í þessa veru styrkti stöðu CSU í kosningum til þings Bæjarlands í haust þar sem flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) sækir að CSU í fyrsta sinn með útlendingamálin að vopni.

Yrði sátt um þetta milli Merkel og Seehofers yrði það til að sameina kristilegu flokkana, CDU/CSU, í þýsku ríkisstjórninni en ekki endilega gleðiefni fyrir Jafnaðarmannaflokkinn (SPD) sem myndar stjórnina með þeim.

Þýski SPD-þingmaðurinn Josip Juratovic sem fæddur er í Króatíu og einn helsti sérfræðingur SPD í málefnum Balkanskaga segir flokk sinn ekki geta stutt flóttmannastöðvar í Albaníu.

„Við teljum að virða beri mannréttindakröfur þess fólks sem leitar verndar og allir vita að svo er ekki í flestum löndum,“ sagði Juratovic við DW.

 

Heimild: DW

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …