Home / Fréttir / Áhugi Finna á NATO-aðild minnkar milli ára

Áhugi Finna á NATO-aðild minnkar milli ára

 

Finnskir sjálfboðaliðar á æfingu.
Finnskir sjálfboðaliðar á æfingu.

Finnum sem vilja að land sitt gerist aðili að NATO fækkar heldur ef marka má nýja könnun sem Taloustutkimus gerði og birt var miðviukudaginn 29. nóvember fyrir ráðgjafanefnd um varnarmál innan finnska þingsins.

Í sambærilegri könnun árið 2016 sögðust 25% Finna vilja aðild að NATO nú eru þeir 22% sem vilja aðild. Fækkunin er innan vikmarka könnunarinnar.

Þá kemur í ljós að afstaða Finna til framtíðar Evrópusambandsins er svipuð og áður þrátt fyrir skuldavanda á evru-svæðinu og Brexit-dramað eins og það er orðað í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE um könnunina.

Meira en helmingur (58%) þeirra 1001 sem voru spurðir sögðust hafa óbreytt traust á ESB. Í fyrra var þessi tala aðeins 45%.

Í könnuninni kemur einnig fram að 60% svarenda (áður 58%) telja ESB stofnun sem gagnast finnsku öryggi.

Þá var spurt um hvað Finnar teldu helstu áhyggjuefni líðandi stundar. Flestir (83%) nefndu þá flóttamannavandann í heiminum (85% í fyrra).

Áhyggjur vegna hryðjuverka jukust úr 75% í 81%. Þá töldu svarendur að finnsk yfirvöld ættu að auka viðbúnað gegn hryðjuverkamönnum sem kæmu frá öðrum löndum.

Alls sögðu 75% að loftslagsbreytingar væru helsta áhyggjuefni sitt.

Taloustutkimus gerði könnunina milli 22. september og 10. október 2017.

 

Heimild: Yle

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …