Home / Fréttir / Áhugi á öryggissamstarfi við Ísland vex innan NATO vegna yfirgangs Rússa

Áhugi á öryggissamstarfi við Ísland vex innan NATO vegna yfirgangs Rússa

Á þessari mynd frá NATO sést Lilja D. Alfreðsdóttir rita undir aðildarskjal Svartfjallalands að NATO,
Á þessari mynd frá NATO sést Lilja D. Alfreðsdóttir rita undir aðildarskjal Svartfjallalands að NATO,

Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson ritstjóra Kjarnans sem birtist laugardaginn 21. maí að það sé „náttúrlega lógískt“ að áhugi Bandaríkjamanna á öryggissamstarfi við Íslendinga aukist eftir að samskiptin við Rússa versnuðu. Frá því að Bandaríkjastjórn lokaði Keflavíkurstöðinni árið 2006 hafa rússneskar hervélar alls 105 sinnum verið skráðar í námunda við lofthelgi Íslands.

Hér birtist kafli úr viðtalinu við utanríkisráðherra á Kjarnanum:

„Ísland var hernaðarlega mjög mikilvægt á kalda stríðs-árunum. Eftir að því lauk dró hægt og rólega úr því mikilvægi og haustið 2006 hurfu síðustu bandarísku hermennirnir frá NATO-herstöðinni á Miðnesheiði. Lilja segir að áhuginn á Íslandi hafi hins vegar aukist samhliða þeim væringum sem orðið hafa á undanförnum árum vegna aðgerða Rússa. „Landfræðileg lega okkar skiptir máli. Rússar eru í námunda við okkur og þeir hafa ítrekað flogið í námunda við lofthelgi okkar á undanförnum árum. Alls 105 sinnum frá árinu 2006, en þetta eru að jafnaði svona þrjú til fjögur skipti á ári. Þeir hafa verið að færa sig nær landinu en hafa ekki farið inn í loftrými Íslands. Við finnum fyrir meiri áhuga á okkur vegna þessa í samskiptum við Bandaríkin frá árinu 2014. Það er bein fylgni milli þess að eftir því sem samskipti Vesturveldanna við Rússland fóru að versna fór áhugi Bandaríkjanna á okkur að aukast á ný. Sem er náttúrulega lógískt.“

Í fimm ára ríkisfjármálaáætlun, sem ríkisstjórn Íslands kynnti nýverið, er meiri fjármunum heitið til utanríkismála. Lilja segir að ekki sé um raunaukningu í utanríkisþjónustunni, t.d. varðandi rekstur sendiráða eða ráðuneytisins, að ræða. „Þetta aukna fé er að fara að mestu í tvo málaflokka. Annars vegar mannúðar- og flóttamannamál og hins vegar öryggis- og varnarmál. Við erum að fjölga fólki hjá NATO um helming og auknir fjármunir eru líka að fara í rekstur Keflavíkurstöðvarinnar.“

Eitt beittasta vopn Vesturlandanna, sem mynda NATO, í þeim átökum sem átt hafa sér stað við Rússa á undanförnum tveimur árum hafa verið viðskiptaþvinganir sem Evrópusambandið, Bandaríkin og Kanada hafa beitt Rússland með stuðningi annarra ríkja. Eitt þeirra ríkja sem stutt hefur þær viðskiptaþvinganir er Ísland. Allt ætlaði reyndar um koll að keyra þegar Rússar brugðust við stuðningi okkar við þvinganirnar með því að setja innflutningsbann á íslenska matvöru, m.a. fisk. Gríðarlegur þrýstingur skapaðist af hendi stærstu útgerðarfélaga landsins, sem áttu fjárhagslega hagsmuni undir því að geta flutt sérstaklega makríl til Rússlands, að taka þá viðskiptalegu hagsmuni fram yfir það að standa með samstarfsþjóðum Íslands til áratuga. Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, stóð hins vegar fastur fyrir og neitaði að taka nokkurt slíkt til álita. Gunnar Bragi sagði síðar í blaðaviðtali að hann hefði aldrei upplifað annan eins þrýsting út af nokkru máli og varð út af þeirri ákvörðun hans.

Aðspurð segist Lilja styðja algjörlega viðskiptaþvinganir samstarfsríkja okkar gegn Rússum og að það verði ekki nein breyting á þeirri afstöðu hennar né ríkisstjórnar Íslands. „Við stöndum með vestrænum þjóðum og okkar bandalagsríkjum hvað þessa stefnu varðar. Ég held þó að menn hafi ekki alveg áttað sig á því hvaða hagsmunir, miklir eða litlir, voru undir. Eitt sem var gert var að það var ráðist í þétta efnahagsgreiningu á því hvert nettó tapið væri af þessum aðgerðum, sem sýndi að það var minna en talað hafði verið um. Það kann að vera að þessi umræða blossi aftur upp ef það kemur að því að endurnýja stuðning okkar við viðskiptaþvinganirnar. En ég sé það ekki gerast að Ísland sé ríkið sem brýtur sig frá þessari samstöðu. Allavega ekki hjá núverandi ríkisstjórn. Það er samstaða um þessa stefnu hjá henni.““

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …