
Dana Eidsness, forstjóri norðurslóðaskrifstofu í Maine-ríki í Bandaríkjunum, segir í samtali á vefsíðu grænlenska ríkisútvarpsins KNR föstudaginn 27. desember að Íslendingar hafi vakið athygli sína á viðskiptatækifærum á Grænlandi.
Í samtalinu lýsir hún miklum áhuga á að nýta siglingar á vegum Eimskips milli Nuuk á Grænlandi og Portland í Maine til að auka viðskipti landanna. Raunar hafi það verið fulltrúar Eimskips sem hafi bent sér á þessi tækifæri fyrir sex árum.
Loks hefði Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. forseti Íslands, rekið smiðshöggið: „Hann talaði næstum aðeins um Grænland, hvernig ég ætti fylgjast með Grænlandi, kynnast fólki á Grænlandi, Bandaríkjamenn fylgjast ekki nægilega vel með gangi mála á Grænlandi. Og ég fór að ráðum hans,“ segir hún.
„Gámaskip eru áþreifanlegur vitnisburður um þau ósýnilegu bönd sem tengja Maine við samfélögin á Norður-Atlantshafi,“ segir Dana Eidsness við KNR.
Hún segir viðskipti við þjóðir við Norður-Atlantshaf mikilvæg fyrir Maine. Það liggi í hlutarins eðli að líta á Maine sem hjarta bandarískra viðskipta við þjóðirnar á norðurslóðum. Raunar sé Maine um þessar mundir nefnt: Gateway to the Arctic – Hliðið að norðurslóðum.
Það má ekki síst rekja til landfræðilegrar legu Maine en Jon Nass, yfirmaður hafnarmála í Maine, segir við KNR að fleira stuðli að tengslunum í norður:
„Við eigum sameiginleg gildi. Við erum fámenn samfélög þar sem lögð er áhersla á persónuleg tengsl og samskipti. Vinni maður með fólki frá Maine kynnist maður því. Við höfum til dæmis nánara samband við fólk í Nuuk, á Íslandi eða í Noregi en þá sem búa í Kaliforníu. Það er mikilvægur grunnur viðskipta- og menningartengsla.“
Dana Eidsbess hefur oft heimsótt Grænland. Hún segir það hafa verið hindrun á viðskiptum við Grænland að allt flutningakerfi þar hafi verið bundið Danmörku auk þess sem samræma þurfi staðla á milli landanna en ekkert af þessu sé óyfirstíganlegt.
Í frásögn KNR segir að bandaríska utanríkisráðuneytið hafi boðið útvarpsstöðinni að senda fréttamenn til Bandaríkjanna til að kynnast aðstæðum og viðhorfi fólks þar. Á hinn bóginn hafi ráðuneytið ekki haft nein afskipti af við hverja fréttamennirnir ræddu eða um hvað.
Heimild: KNR. Fréttamenn: Dorthea Johansen, Anton Gundersen Lihn