Home / Fréttir / Áhrifamenn hittast í Davos og hlusta á brýningu frá Zelenskíj

Áhrifamenn hittast í Davos og hlusta á brýningu frá Zelenskíj

Klaus Schwab stofnandi WEF.

Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum, WEF), sjálfseignarstofnun sem kallar áhrifamenn í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum saman til funda í fjallabænum Davos í Grison-héraði í Sviss, efnir nú til fundar í 51. skipti eftir fundarfall tvö ár röð (janúar 2021 og janúar 2022) vegna COVID-19-faraldursins. Fundarmenn þurfa ekki úlpur og kuldaskó þegar þeir hittast nú í sumarblíðu Alpafjallanna.

Þýskur hagfræðingur, Klaus Schwab (84 ára) stofnaði til þessa einstæðu árlegu alþjóðafunda á sínum tíma og heldur enn um stjórnvölinn. Hann vildi að í umræðunum yrði lögð áhersla á tvö málefni: nýjar aðstæður í heiminum eftir COVID og umhverfismál. Önnur mál ber hins vegar hæst. Verðbólga er nú til vandræða í efnahagslífi margra þjóða og fæðuöryggi er ógnað. Fyrst og síðast beinist athygli þó að stríðinu í Úkraínu sem háð er í innan við 1.000 km frá ráðstefnuhöllinni í Davos.

Á setningardegi ráðstefnunar, mánudaginn 23. maí, átti Volodymyr Zelenskíj. forseti Úkraínu sviðið. Hann ávarpaði ráðstefnugesti um fjarfundarbúnað og hvatti til þess að Úkraínumönnum yrði veitt meiri aðstoð í stríðinu við Rússa. Það ætti enn að herða á efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Rússum til að lama þá. Loka ætti fyrir rússnesk olíuviðskipti. Útiloka ætti rússneska banka frá heimskerfum. Hverfa ætti frá öllum viðskiptum við Rússa.

Eins og oft áður hvatti forsetinn til þess að her Úkraínu fengi fleiri stórskotavopn.

Hann vísaði til þess að í ár er ráðstefna WEF haldin undir heitinu: Saga á vatnaskilum og sagði að nú ættu ráðstefnugestir að ákveða hvort „stjórna ætti heiminum með dólgshætti“.

Enginn Rússi tekur þátt í Davos-ráðstefnunni að þessu sinni. Þátttakendur eru um 2.500 en voru 3.000 í janúar 2020.

Undanfarin ár hefur gætt vaxandi gagnrýni á WEF og Davos-fundina og er þeim lýst sem samkomu þeirra sem hafa ráð heimsins í hendi sér í krafti peninga og stjórnmálavalds.

Klaus Schwab segir þetta ómaklega gagnrýni. Það sé í „anda Davos“ að gera heiminn betri og til þess sé nauðsynlegt að kalla saman fremstu áhrifamenn á öllum sviðum. Það verði að rísa gegn uppbroti, sundrung og verndarstefnu sem nú setji um of svip sinn á heimsmyndina og stuðla að alþjóðavæðingu og fjölþjóðasamstarfi.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …