Home / Fréttir / Áherslur breytast í varnarstefnu Bandaríkjanna – frá hryðjuverkamönnum til Rússa og Kínverja

Áherslur breytast í varnarstefnu Bandaríkjanna – frá hryðjuverkamönnum til Rússa og Kínverja

James Mattis varnarmálaráðherra flytur ræðu í John Hopkins-háskólanum,
James Mattis varnarmálaráðherra flytur ræðu í John Hopkins-háskólanum,

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að varnarstefna Bandaríkjanna taki nú mest mið af keppni milli stórvelda en ekki hryðjuverkum. Bandaríkjamenn standa nú frammi fyrir „vaxandi ógn frá jafn ólíkum endurskoðunarsinnuðum ríkjum og Kína og Rússlandi,“ sagði ráðherrann þegar hann kynnti stefnuna sem unnin er af varnarmálaráðuneytinu innan ramma þjóðaröryggisstefnunnar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í desember 2017. 

James Mattis flutti ræðu föstudaginn 19. janúar í John Hopkins-háskólanum í Baltimore. Hann varaði þá við sem vildu ógna lýðræðisviðleitni Bandaríkjamanna: „Ef þig ögrið okkur rennur upp lengsti og versti dagur ykkar,“ sagði hann og telja fréttaskýrendur að orðunum hafi verið beint til Rússa. 

Ár er nú liðið frá því að Donald Trump tók við forsetaembættinu og er þetta fyrsta heildstæða varnarstefnan sem kynnt er af stjórn hans. Hættumatið nær til sömu atriða og í forsetatíð Baracks Obama en forgangsröðin er önnur. 

Í tíð Obama beindist athyglin að hópum eins og Daesh (Ríki íslams) eða al-Kaída en síðan hafa gömlu andstæðingar Bandaríkjamanna í kalda stríðinu, Rússar og Kínverjar, stolið sviðinu. Mattis sagði að stjórnendur þessara þjóða vildu að skipan heimsmála félli að stjórnlyndu þjóðskipulagi þeirra. 

Í frétt BBC af ræðunni er minnt á þrjú stóru kjarnorkuveldin ógni stöðugt tilvist hvert annars, nú eins og í kalda stríðinu. Kjarnorkuvopnin haldi aftur af þeim en þó hafi dregið til þeirra tíðinda síðustu ár að menn óttist að til átaka komi milli herja þeirra með venjulegum vopnum. Þetta hafi verið talið óhugsandi en átökin í Sýrlandi og Úkraínu séu þess eðlis að ekki sé unnt að útiloka að til bardaga komi milli herja Bandaríkjanna og Rússlands. 

Í BBC er vísað til þess að Elbridge Colby, einn af vararáðherrum í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, telji að í mörg ár hafi einkum Kínverjar og Rússar unnið markvisst að því að þróa herafla sinn á þann veg að eyða hernaðarlegu forskoti Bandaríkjamanna. 

Í ræðu sinni áréttaði Mattis varnarmálaráðherra að Bandaríkin væru „enn sterk“, til hins yrði þó jafnframt að líta að forskot þeirra hefði „minnkað á öllum sviðum hernaðar – í lofti, á landi, sjó, í geimnum og netheimum – og héldi stöðugt áfram að minnka“. 

Hann hvatti bandaríska þingmenn til að samþykkja meiri fjárveitingar til hermála. Ekki væri unnt að framkvæma neina varnarstefnu án nægra fjármuna. Skortur á heildstæðri stefnu um fjárveitingar væri í raun það sem skaðað hefði Bandaríkjaher mest undanfarin 16 ár, það er frá árásunum 11. september 2001. 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …