Home / Fréttir / Ágreiningur um loftslagsmál í Norðurskautsráðinu við upphaf formennsku Íslendinga

Ágreiningur um loftslagsmál í Norðurskautsráðinu við upphaf formennsku Íslendinga

Myndin var tekin af þátttakendum í Rovaniemi-fundinum 7. maí 2019.
Myndin var tekin af þátttakendum í Rovaniemi-fundinum 7. maí 2019.

Engin sameiginleg ályktun var gefin út eftir fund utanríkisráðherrafund Norðurskautsríkjanna átta í Rovaniemi í Finnlandi þriðjudaginn 7. maí. Með ályktuninni átti að leggja víðtækan pólitískan grunn að starfi ráðsins næstu tvö ár undir formennsku Íslendinga. Aldrei fyrr hefur það gerst í sögu Norðurskautsráðsins frá árinu 1996 að ekki hafi náðst samkomulag um ályktun af þessu tagi. Í stað ályktunarinnar rituðu ráðherrarnir undir samstarfsyfirlýsingu.

Martin Breum, blaðamaður vefsíðunnar Arctic Today segir að í tvo mánuði hafi embættismenn lagt hart að sér við að ná samkomulagi um ályktunina. Þrátt fyrir mikla vinnu hafi ekki tekist að sætta sjónarmið ríkisstjórna og fulltrúa frumbyggja um orðalag ályktunarinnar vegna andstöðu Bandaríkjamanna við að þar yrði fjallað um loftslagsmál.

Vitnað er í Bill Erasmus forystumann Athabaskan-ráðs frumbyggja sem sagði í ræðu sinni á fundinum að hans fólk hefði miklar áhyggjur af loftslagsbreytingunum og öldungar meðal þess segði byggðina í miklum vanda.

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, harmaði að ekki næðist samkomulag um ályktunina – breytingar væru að gerast á þessari stundu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staðfesti í ræðu sinni áhersluna sem Bandaríkjastjórn leggur á þátttöku sína í Norðurskautsráðinu. Hann sagði stjórnina vilja góða stjórn umhverfismála á norðurskautssvæðinu en hann minntist ekki orði á loftslagsbreytingar. Þess í stað benti hann á að aukin viðvera Kínverja á norðurslóðum kynni að ógna umhverfinu. Hann sagði einnig að Bandaríkjamenn hefðu minnkað útblástur á svörtum koltvísýringi meira en nokkur önnur aðildarþjóð Norðurskautsráðsins.

Ine Søreide Eriksen, utanríkisráðherra Noregs, minntist á loftslagsbreytingar en nefndi ekki ágreining innan ráðsins. Hún lagði hins vegar áherslu á samstöðu aðildarríkjanna átta um verndun sjávar og önnur sameiginleg verkefni. Að hennar mati var þátttaka utanríkisráðherra frá aðildarríkjunum átta til marks um öflugan stuðning við samvinnu á norðurslóðum. Aðeins einu sinni áður á 23 árum hafa utanríkisráðherrar ríkjanna átta setið fund í ráðinu.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, sem stjórnaði fundinum kynnti niðurstöðu meirihluta ráðsins formlega:

„Meirihluti okkar lítur á loftslagsbreytingar sem grundvallar áskorun fyrir norðurslóðir og viðurkennir brýna þörf fyrir mótvægis- og aðlögunaraðgerðir og til að auka viðnámsþrótt og við fögnum niðurstöðu UNFCCC COP24 ráðstefnunnar í Katowice, þar á meðal verkáætluninni á grundvelli Parísarsamkomulagsins.“

Við upphaf fundar ráðherranna að morgni þriðjudagsins 7. maí breytti Soini kynntri dagskrá á þann veg að fallið var frá undirritun sameiginlegrar yfirlýsingar. Þess í stað rituðu ráðherrarnir undir það sem kallað er sameiginleg ráðherrayfirlýsing, tveggja blaðsíðna skjal með minna formlegt gildi en fullgild ályktun fundarins. Ráðherrayfirlýsingunni er ætlað að skapa ramma um samstarf ríkisstjórnanna átta sem mynda Norðurskautsráðið.

„Ég er ánægður með árangurinn. Hann hefði getað orðið verri,“ sagði Soini eftir fundinn þegar hann fól Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra formlega formennskuna.

Í sameiginlegu ráðherrayfirlýsingunni sem allir utanríkisráðherrarnir staðfestu með undirritun sinni er ekki minnst á loftslagsbreytingar. Þess í stað lýst viðurkenningu á fjölbreytileika samfélaga, menningar og efnahags á norðurslóðum og áréttaður stuðningur við velferð íbúa á norðurskautssvæðinu. sjálfbæra þróun og vernd umhverfis“.

Í lok fréttar sinnar segir Martin Breum að ráðherrayfirlýsingin og aðrir formlegir textar tryggi starf Norðurskautsráðsins. Vísindanefndir ráðsins og aðrir undirhópar getu starfað áfram þótt ekki hefði náðst samkomulag um alhliða ályktun ráðherrafundarins.

 

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins

 

Utanríkisráðuneytið birti neðangreinda frétt á vefsíðu sinni þriðjudaginn 7. maí:

Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins sem lauk fyrr í dag í Rovaniemi í Finnlandi og tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum. Ráðherrafundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Finnlands í ráðinu. Á fundinum var farið yfir starf Norðurskautsráðsins undanfarin tvö ár og lagður grunnur að verkefnum næstu tveggja ára í formennskutíð Íslands.

Utanríkisráðherra kynnti á fundinum formennskuáætlun Íslands undir heitinu „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Þar er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Einnig verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins og kynna starf þess út á við. Þá verður jafnframt unnið að þeim tæplega eitt hundrað verkefnum sem vinnuhópar Norðurskautsráðsins sinna að jafnaði á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.

Af einstökum verkefnum má nefna að Ísland hyggst beina sjónum sérstaklega að bláa lífhagkerfinu þar sem skoðað er hvernig nýta megi líftækni og nýsköpun til að stórauka verðmæti sjávarafurða og draga úr lífrænum úrgangi frá vinnslu sjávarfangs. Einnig verður lögð sérstök áhersla á baráttu gegn plastmengun í höfunum auk þess sem áfram verður unnið að bættu öryggi sjófarenda í samstarfi við Strandgæsluráð norðurslóða sem Landhelgisgæslan leiðir næstu tvö árin. Ísland hyggst ennfremur halda áfram með verkefni sem miðar að því að leita grænna orkulausna fyrir einangruð norðurslóðasamfélög, auk þess að beita sér fyrir verðugum sessi jafnréttismála á vettvangi Norðurskautsráðsins og kynna íslenska aðferðafræði í forvörnum við áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna. Ísland mun einnig beita sér fyrir auknu samstarfi Norðurskautsráðsins við Efnahagsráð norðurslóða, en það mun einnig lúta íslenskri formennsku næstu tvö árin.

Í ræðu sinni lagði Guðlaugur Þór ríka áherslu á mikilvægi sjálfbærni og minnti á að henni verður ekki náð nema jafnvægi ríki milli umhverfisverndar, efnahagslegrar framþróunar og uppbyggingar samfélaga. „Hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú og athygli á málefnum norðurslóða aldrei meiri samhliða loftslagsbreytingum og sviptingum í alþjóðastjórnmálum. Það er því verðugt verkefni að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessum tímapunkti með samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra eftir fundinn.

Utanríkisráðherrar allra átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins sóttu fundinn, en þau eru Bandaríkin, Kanada, Rússland og Norðurlöndin. Að auki sóttu fundinn forystufólk sex frumbyggjasamtaka sem eru fullir þátttakendur í starfsemi Norðurskautsráðsins og fulltrúar 39 áheyrnaraðila, en á meðal þeirra eru ríki eins og Kína, Frakkland, Indland, Þýskaland, Japan og Suður-Kóreu.

Utanríkisráðherra átti jafnframt nokkra tvíhliða fundi í Rovaniemi. Á fundi með Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, ræddu ráðherrarnir meðal annars formennskuskiptin í Norðurskautsráðinu og málefni Evrópuráðsins, sem Finnland er í formennsku fyrir. Þegar hefur verið greint frá fundi með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en Guðlaugur Þór átti einnig fund með Sam Tan Chin Siong, fyrsta ráðherra í ríkisstjórn Singapúr þar sem rædd voru tvíhliða samskipti ríkjanna og málefni norðurslóða.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …