Ríkisoddvitafundur NATO verður í Brussel mánudaginn 14. júní. Þess er vænst að á fundinum staðfesti fundarmenn áformin sem boðuð eru í skjalinu NATO 2030 sem kynnt var á árinu 2020. Á grundvelli skjalsins verður samin ný grunnstefna (e. strategic concept) NATO í stað þeirrar sem nú er í gildi. Hún var samþykkt árið 2010.
Norðmaðurinn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir við norska blaðamenn í tilefni af fundinum að vöxtur og styrkur Kína sé ráðandi þáttur í alþjóða- og öryggismálum samtímans og það muni setja svip sinn á ríkisoddvitafundinn.
Talið er víst að í lokayfirlýsingu fundarins birtist viðhorf NATO-ríkjanna 30 til Kína og samskipta við kínverska ráðamenn á næstu árum.
Norska fréttastofan NTB segir að ekki hafi reynst auðvelt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um afstöðuna til Kína í yfirlýsingunni og orðalagið kunni að verða óljóst fram til þess að efni yfirlýsingarinnar verði rætt á fundinum. Almennt er stefnt að því að ná samkomulagi um texta frá slíkum fundum áður en til þeirra kemur.
NTB segir að stjórnir Evrópuríkja vilji mildara orðalag um Kína en Bandaríkjastjórn og norska ríkisstjórnin skipi sér þar með evrópskum ríkisstjórnum.
Þá hafi norskir stjórnmálamenn viljað forðast að Rússar og Kínverjar verði settir á sama bás og af hálfu NATO verði ekki útilokað að eiga samstarf við Kínverja.
Minnt er á að Jens Stoltenberg hafi hvað eftir annað lagt áherslu á tækifæri til samstarfs við Kínverja til dæmis í loftslagsmálum og í viðleitni til að ná stjórn á vígbúnaðarmálum. Að auki eigi það sjónarmið hljómgrunn meðal NATO-ríkja að gagnlegt sé að eiga samstarf við Kínverja vegna Afganistan.
Í norskum fréttum segir að í höfuðstöðvum NATO eigi sú skoðun þó einnig fylgi að Kínverjar sýni ofstopa í alþjóðasamstarfi og reyni að breyta leikreglum þar sér í hag. Þá standi mönnum ekki á sama um hver framvindan verði í hernaðarsamvinnu Kínverja og Rússa.
Jens Stoltenberg segir að brátt verði kínverska hagkerfið stærst í heiminum og hernaðarútgjöld Kínverja séu meiri en nokkurrar annarrar þjóðar og þeir eigi stærsta herflotann. Kínverjar þrói sífellt öflugri hátæknivopn og þar á meðal séu ofurhraðfleygar og langdrægar kjarnorkuflaugar.
Þá segir framkvæmdastjóri NATO í svari við spurningu frá Dagbladet:
„Kínverjar hafa ekki sömu trú og við á lýðræði og frelsi. Nægir þar að benda á hvernig þeir lemja á baráttumönnum lýðræðis í Hong Kong og níðast á Úígúrum. Jafnframt beita þeir nútímatækni til að hafa eftirlit með eigin þegnum, aldrei fyrr í mannkynssögunni hefur annað eins þekkst.“
Hann sakar Kínverja einnig um að ógna Tævan og hindra siglingar um Suður-Kínahaf. „Allt snertir þetta á sinn hátt öryggi okkar,“ segir Stoltenberg við Norðmenn.
Þegar málið er borið undir Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, tekur hún undir gagnrýni á Kínverja. Nefnir hún meðal annars aðgerðir þeirra í netheimum sem beri með sér árásrgirni, að þessu verði NATO að huga.
Hún telur að í nýrri grunnstefnu NATO verði að greina vel afstöðuna til Kína. Áform eru um að grunnstefnan verði afgreidd á ríkisoddvitafundi NATO árið 2022.