Home / Fréttir / Áfram fjölþátta ögranir við finnsku landamærin

Áfram fjölþátta ögranir við finnsku landamærin

Landamærastöðvar milli Finnlands og Rússlands.

Landamæraverðir rússnesku öryggislögreglunnar (FSB) leyfðu fimmtudaginn 14. desember 93 hælisleitendum að fara yfir landamærin til Finnlands við Niirala. Vegna viðbragða Rússa var stöðvunum lokað að nýju til 14. janúar 2024.

Finnsk stjórnvöld sögðu heimild FSB vera fjölþátta ógnaraðgerð og lokuðu landamærum sínum að nýju eftir að hafa opnað þau til reynslu.

Finnar opnuðu tvær landamærastöðvar í suðurhluta lands síns, við Vaalimaa og Niirala, til reynslu fimmtudaginn 14. desember. Að kvöldi þess sama dags tilkynnti Mari Rantanen innanríkisráðherra að stöðvunum yrði lokað að nýju kl. 20.00 föstudaginn 15. desember klukkan 20.00. Þeim var upphaflega lokað 30. nóvember 2023 vegna mikils og skipulagðs straums hælisleitenda frá Rússlandi.

Þegar ráðherrann tilkynnti að stöðvunum yrði lokað að nýju sagði hún að hælisleitendur hefðu tekið til sinna ráða hraðar en reiknað var með. Hún sagði augljóst að erlent ríki beitti áhrifum sínum til að stuðla að ólöglegri för fólks til Finnlands fyrir utan að þar ættu glæpamenn einnig hlut að máli. Það væri í höndum Finna að ákveða allt sem sneri að Finnlandi.

Alls eru sex stöðvar á rúmlega 1.300 km löngum landamærum Rússlands og Finnlands. Finnar lokuðu öllum landamærastöðvunum í nóvember til að stöðva ferðir hælisleitenda um þær þegar talið var ljóst að um fjölþátta óvinveitta aðgerð rússneskra yfirvalda væri að ræða.

Finnski forsætisráðherrann Petteri Orpo tilkynnti þriðjudaginn 12. desember að tvær landamærastöðvar yrðu opnaðar til reynslu fimmtudaginn 14. desember. Hann boðaði þá að gripið yrði tafarlaust til gagnaðgerða ef Rússar hæfu sama leik og áður í örgrunarskyni.

Finnska landamæravarslan, Raja, sagði að í hópi þeirra 93 sem leitað hefðu hælis 14. desember væru Sómalir, Sýrlendingar og Indverjar. Kom fólkið á reiðhjólum að landamærunum.

Í norðri eru allar landamærastöðvar til Rússlands lokaðar fyrir utan Storskog, skammt frá Kirkenes í Norður-Noregi. Norsk stjórnvöld segja að þau muni loka Storskog með nokkurra klukkustunda fyrirvara ákveði Rússar að beina straumi hælisleitenda þangað.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …