Home / Fréttir / Afdráttarlaus viðvörun Bidens til Pútíns

Afdráttarlaus viðvörun Bidens til Pútíns

Leitað að fjöldagröfum eftir hernám Rússa í austurhluta Úkraínu.

„Heimurinn mun líta á ykkur sem meiri úrhrök en nokkru sinni fyrr. Og það ræðst af verknaði ykkar hver viðbrögðin verða,“ segir Joe Biden Bandaríkjaforseti um rússneska ráðamenn í þætti CBS-sjónvarpsstöðvarinnar 60 mínútur sem sýndur verður sunnudaginn 18. september.

Hann bregst með þessum orðum við spurningum fréttamanns en áður varar forsetinn Rússa við því að grípa til kjarnavopna, það hefði afleiðingar sem hann lýsir ekki nánar. Hvetur hann Rússa eindregið til að hreyfa ekki við kjarnorkuvopnum. Það breyti gangi stríðsins.

Ótti við að Rússar kunni að grípa til örþrifaráða hefur aukist eftir að Úkraínuher hrakti rússneska hermenn með leiftursókn á brott úr borginni Kharkiv í norðaustur hluta Úkraínu.

Niðurlæging Rússa í Kharkiv hefur leitt til vaxandi gagnrýni á Vladimir Pútin Rússlandsforseta á heimavelli.

Í skýrslu sem samin hefur verið á vettvangi NATO segir að ekki sé við því að búast að stríðinu ljúki í bráð þrátt fyrir sókn og sigra Úkraínuhers.

Rússar ráða yfir miklu magni af skammdrægum (taktískum) kjarnavopnum. Slíkum vopnum hefur aldrei verið beitt í hernaði. Þótt ólíklegt sé er ekki óhugsandi að Pútin gefi fyrirmæli um að þessum vopnum verði beitt telji hann ekkert annað sér til bjargar. Við það mundu átökin magnast og taka á sig svip stórstyrjaldar.

Viðvörunarorð Bidens sem nefnd eru í upphafi fréttarinnar snúa að þessu:

„Ekki gera það. Ekki gera það. Ekki gera það. Heimurinn mun líta á ykkur sem meiri úrhrök en nokkru sinni fyrr. Og það ræðst af verknaði ykkar hver viðbrögðin verða,“ sagði forsetinn við CBS.

Nú eru tæp 80 ár frá því að kjarnavopn komu til sögunnar og eru þau talin hafa mesta fælingarmátt allra vopna. Þau eru flokkuð sem skammdræg og langdræg, annars vegar til nota á vígvellinum og hins vegar til að senda á fjarlæga staði.

Federation of American Scientists segir að Rússar hafi aðgang að tæplega 6.000 kjarnaoddum. Í vopnabúri Bandaríkjanna er álíka mikill fjöldi slíkra odda. Kalda stríðið einkenndist af ótta við þessi vopn sem enginn dirfðist til að nota vegna þess gífurlega tjóns sem af hlytist – þá var hugtakið ógnarjafnvægi til í því skyni að skýra gagnkvæman fælingarmátt vopnanna.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt að beiti Pútin skammdrægum kjarnavopnum fari hann yfir „rauða línu“ og NATO grípi til gagnaðgerða.

Beiting hvers kyns rússneskra kjarnavopna í Úkraínu yrði hættuleg fyrir nágrannaþjóðir landsins, Belarússa, Rússa sjálfa og íbúa NATO-landa.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …