Home / Fréttir / AfD vinnur stórsigur í Thüringen – stórtap CDU

AfD vinnur stórsigur í Thüringen – stórtap CDU

Björn Höcke, leiðogi AfD í Thüringen, fagnar kosningasigrninum. Til vinstri er Alexander Gauland, leiðtogi AfD í Berlín.
Björn Höcke, leiðogi AfD í Thüringen, fagnar kosningasigrinum. Til vinstri er Alexander Gauland, leiðtogi AfD í Berlín.

AfD-flokkurinn (Alternative für Deutschland) sem skipar sér lengst til hægri í Þýskalandi vann góðan sigur í Thüringen í austurhluta Þýskalands í kosningum til sambandslandsþingsins þar sunnudaginn 27. október.

Sigurvegari var Die Linke, flokkurinn lengst til vinstri, arftaki kommúnistaflokksins sem réð lögum og lofum í Thüringen og annars staðar í Austur-Þýskalandi þar til Berlínarmúrinn féll 9. nóvember 1989. Die Linke fékk um 29,4% (+1,2% frá 2014) atkvæða. AfD fékk 23,9% (+13% frá 2014) og meira en tvöfaldaði fylgi sitt frá því í þingkosningunum 2014.

Kristilegir demókratar (CDU) flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara fékk um 22,1% (-11,4% frá 2014) sem er mikið fall frá því sem áður var en frá 1990 hefur flokkurinn jafnan fengið flest atkvæði í Thüringen. Nú er CDU í þriðja sæti á eftir AfD. Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) fékk mjög slæma útreið, aðeins 8% (-4,4% frá 2014).

Margir spáðu því að það drægi úr fylgi við AfD að 9. október gerði ný-nazisti skotárás á bænahús gyðinga í borginni Halle og felldi tvo fyrir framan húsið.

Mikil harka einkenndi kosningabaráttuna í Thüringen og kallaði Mike Mohring, frambjóðandi CDU, Björn Höcke, leiðtoga AfD, nazista.

Þegar útgönguspár birtust sagði sigursæll Höcke að nú 30 árum eftir fall Berlínarmúrsins hefðu atkvæði fallið til stuðnings annarri byltingu „Umbreytingu 2.0“ og í henni fælist hrein höfnun á steinrunna þýska flokkakerfinu.

Bodo Ramelow, forsætisráðherra Thüringen, er úr Die Linke og hefur leitt stjórn með SPD og græningjum. Þótt Die Linke séu nú í fyrsta sinn stærsti flokkurinn í sambandslandinu hefur stjórnin sem Ramelow leiðir misst meirihluta sinn. Ramelow sagðist ætla að leiða stjórn Thüringen áfram en honum verður ekki auðvelt að mynda meirihluta að baki sér. Til þessa hefur CDU hafnað öllu samstarfi við Die Linke þótt Ramelow þyki hófsamur í skoðunum en hann er vinsæll fyrrverandi verkalýðsleiðtogi.

Björn Höcke (47 ára), leiðtogi AfD í Thüringen, er fyrrverandi sögukennari og er litið á hann sem öfgafullan, jafnvel innan eigin flokks. Hann segir að minningarsafnið um gyðingaofsóknirnar sem reist var í Berlín sé „skammarlegt“ og krefst þess að Þjóðverjar gjörbreyti um afstöðu til glæpanna gegn mannkyni sem framdir voru af nazistum.

Höcke telur sig eiga erindi á æðri vettvang innan AfD og sakar leiðtoga flokksins í Berlín um „persónudýrkun“ eftir að þeir gengu inn í fundarsal umkringdir fánaberum.

Í fyrstu var AfD uppnámsflokkur gegn ESB en breytti síðan um stefnu og tók upp andstöðu við múslima, flótta- og farandfólk og sneri sér í vil óánægju margra Þjóðverja yfir straumi þessa fólks til lands síns árið 2015. Stefna flokksins hefur einkum átt hljómgrunn í austurhluta Þýskalands.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …