Home / Fréttir / Áfangasigur í Brexit-viðræðunum – landamæri á Írlandi helsti þröskuldurinn

Áfangasigur í Brexit-viðræðunum – landamæri á Írlandi helsti þröskuldurinn

 

Frá landamærum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.
Frá landamærum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tókst á úrslitastundu að ná samkomulagi við ESB sem bindur enda á deilur um „skilnaðarskilmála“ Breta og opnar leið að viðræðum um framtíðarskipan á samskiptum ESB og Breta eftir úrsögn þeirra úr sambandinu í mars 2019. Hefði Theresa May ekki náð að ljúka þessum fyrsta úrsagnaráfanga nú hefði beðið hennar mikill vandi á heimavelli.

Samkomulagið var kynnt að morgni föstudags 8. desember og talið er fullvíst að það verði staðfest á fundi leiðtogaráðs ESB fimmtudaginn 14. desember og þar með opnist leið til viðræðna um viðskiptasamning Breta og ESB.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði á Twitter: „Gott er að komast í 2. áfanga viðræðnanna – en smáatriðin eru stórvarasöm og nú harðnar fyrst á dalnum.“

Ryðja þurfti þremur hindrunum úr vegi til að hefja mætti annan áfanga úrsagnarviðræðnanna: (1) deilt var um landamæri milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands (hluta af Bretlandi), þar verða ekki hindranir eftir úrsögn; (2) tryggja þurfti rétt breskra ríkisborgara innan ESB og ESB-borgara í Bretlandi, staðinn verður vörður um hann og (3) Bretar greiða 35 til 39 milljarða punda í skilnaðargjald

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði um „þáttaskil“ að ræða og hann væri sannfærður um að samkomulagið yrði samþykkt af leiðtogum ESB-ríkjanna í næstu viku.

Theresa May og Juncker hittust í Brussel mánudaginn 4. desember og lögðu þá grunn að samkomulaginu en DUP-flokkurinn á Norður-Írlandi sem tryggir stjórn May meirihluta á breska þinginu lagðist gegn ákvæðum samkomulagsins um landamærin milli Írska lýðveldisins og N-Írlands. Nú sættir flokkurinn sig við niðurstöðuna því að í henni felist trygging fyrir að ekki verði það sem kallað er á ensku hard border (hörð landamæri) á Írlandi og staðinn verði vörður um „stjórnskipulega og efnahagslega einingu Sameinaða konungdæmisins“ (UK). Segir DUP að þetta þýði að ekki verði dregin „nein rauð lína í Írlandshaf“ milli Norður-Írlands og annarra hluta UK, United Kingdom.

Staðinn verður vörður um rétt breskra borgara til að búa, starfa og stunda nám innan ESB og öfugt. Þá hafa fjölskyldur ESB-borgara sem nú búa í Bretlandi rétt til að sameinast þeim í Bretlandi. Þrjár milljónir ESB-borgara eru í Bretlandi og um ein milljón Breta annars staðar í ESB.

Í skjalinu sem kynnt var föstudaginn 8. desember er ekki að finna neinar tölur þegar rætt er um lausn á ágreiningi um skilnaðargreiðslu Breta en breska forsætisráðuneytið segir að um sé að ræða fjárhæð á bilinu 35 til 39 milljarða punda og undir það falli fjárhagsskuldbindingar á tveggja ára „umþóttunartíma“ eftir mars 2019.

Þetta eru lægri fjárhæðir er nefndar hafa verið áður. Af hálfu ESB var fallið frá kröfu um að Bretar greiddu kostnað við flutning ESB-stofnana frá Bretlandi til ESB-landa.

Breska stjórnin og ESB vilja að áfram verði frjálst flæði varnings án landamæraeftirlits á milli Írska lýðveldisins og UK á Írlandi en DUP vill ekki að N-Írland njóti sérstöðu innan UK eftir úrsögnina úr ESB. Í skjalinu sem nú hefur verið kynnt segir að í væntanlegum samningi verði hlúð að samvinnu milli suðurs og norðurs á Írlandi og Bretar tryggi að komist verði hjá „hörðum landamærum“.

Þá segir einnig að náist viðskiptasamningur milli UK og ESB muni UK tryggja „fullkomna samstillingu“ með þeim þáttum innri markaðar ESB og tollabandalags sem styðja efnahag eyjunnar Írlands og samkomulagið sem kennt er við föstudaginn langa s.s. að því er varðar landbúnað og orkumál.

Michel Barnier, samningamaður ESB, sagði blaðamönnum að samstillingin næði aðeins til „eyjunnar Írlands“ en ekki til annarra hluta UK þótt sumir Brexit-sinnar hafa túlkað orðalagið á þann veg að það þýddi að alls staðar innan UK yrðu menn að lúta einhverjum ESB-reglum.

Í samkomulaginu segir einnig að „engar nýjar regluhindranir“ verði leyfðar milli Norður-Írlands og annarra hluta UK og að fyrirtæki á N-Írlandi hafi áfram „hindrunarlausan aðgang“ að innri markaði UK. Talið er að þetta standi þarna að ósk DUP.

Sumir innan DUP hefðu einnig viljað að ekki væri minnst á „fullkomna samstillingu“ í skjalinu en Chris Morris, fréttaskýrandi BBC, segir að írska ríkisstjórnin hafi viljað orða þetta á þennan veg.

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, sagði: „Þessu er ekki lokið en þetta er endir á upphafinu.“

Breskir ráðherrar báru lof á Theresu May. Michael Gove, umhverfisráðherra og alkunnur Brexit-sinni, sagði þetta „verulegan persónulegan pólitískan ávinning“ fyrir May og skoðanabróðir hans Boris Johnson utanríkisráðherra sagði á Twitter: „Heillaóskir til forsætisráðherrans fyrir einarðan vilja til að ná samningi dagsins.“

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …