
Ríkissaksóknari Belgíu skýrði frá því að morgni sunnudags 10. apríl að hópurinn sem stóð að hryðjuverkunum í Brussel 22. mars hefði ætlað að vinna hryðjuverk að nýju í Frakklandi en horfið frá því vegna þess hvernig miðaði við rannsókn hryðjuverkanna sem hópurinn vann í París 13. nóvember 2015.
Ríkissaksóknarinn gaf út ákæru á hendur Mohamed Abrini sunnudaginn 10. apríl fyrir aðild hans að hryðjuverkunum í Brussel og Zaventem 22. mars. Abrini var handtekinn laugardaginn 9. apríl en hann hafði þegar verið ákærður fyrir aðild að hryðjuverkunum í París.
Mohamed Abrini er sakaður um að hafa verið með Najim Lachraoui og Ibrahim El Bakraoui þegar þeir gengu inn í flugstöðina í Zaventem að morgni 22. mars. Félagar hans tveir sprengdu sig í loft upp í stöðinni og einnig varð síðar sprenging í lestarstöð í miðborg Brussel. Alls týndu 32 lifi og um 300 særðust.
Mohamed Abrini er 31 árs með tvöfaldan ríkisborgararétt sem Marokkómaður og Belgi. Hann var handekinn föstudaginn 8. apríl í Anderlecht í Belgíu og játaði laugardaginn að vera einn þremenninganna sem gekk inn í flugstöðina, vera maðurinn með hattinn á mynd sem var tekin af þeim.
Lögreglan segir að lífssýni og fingraför Abrinis hefðu fundist í íbúð við Rue Henri Bergé í Scharebeek-hverfinu í Brussel. Rannsakendur telja að íbúðin hafi verið notuð við gerð á sprengjum og sprengjubeltum fyrir árásina í París.
Ekki eru allir sannfærðir um að játning Abrinis um aðild að hryðjuverkunum í Brussel sem maðurinn með hattinn sé sannleikanum samkvæm.
Pieter Van Ostayen, hryðjuverkasérfræðingur sem fylgst hefur með Ríki íslams árum saman og rannsókninni á ódæðinu í París, telur að Abrini hafi játað á sig sök til að fela aðra félaga sína.
Laugardaginn 9. apríl sagði Ostayen við Belga-fréttastofuna að framganga Abrinis eftir handtökuna væri ekki í samræmi við reglur Ríkis íslams. Það væri ekki unnt að ímynda sér að nokkur maður í þessari stöðu innan Ríkis íslams lýsti einfaldlega yfir sekt sinni og hann hefði bara selt hattinn sinn eins og Abrani segðist hafa gert. „Ég trúi því ekki eitt andartak,“ sagði sérfræðingurinn. Þetta væri aðferð til að fela aðra í hryðjuverkahópnum.