Home / Fréttir / Ægisif verður helgistaður múslima eins og árið 1453

Ægisif verður helgistaður múslima eins og árið 1453

Múslimar á bæn við Ægisif
Múslimar á bæn við Ægisif

Mustafa Kemal Atatürk, stofnandi tyrkneska lýðveldisins, ákvað 24. nóvember 1934 að breyta moskunni Ægisif í samastað allra manna og hún yrði safn. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ákvað 86 árum síðar, 10. júlí 2020, að þetta djásn Istanbúl yrði helgistaður múslima. Hann gladdi með þessu mestu trúmenn í hópi stuðningsmanna sinna og bandamenn sína lengst til hægri.

Í ríkisráði Tyrklands ræður nú meirihluti manna sem árum saman hafa barist fyrir að múslimar fái alla staði til trúariðkana sem af þeim voru teknir til afhelgunar á upphafsárum tyrkneska lýðveldisins.

Föstudaginn 10. júlí ógilti ríkisráðið ákvörðun Atatürks um afhelgun Ægisif. Þess í stað var ákveðið að í gildi gengi ákvörðun sem Múhammeð sigursæli tók árið 1453 um að ekki mætti nota Ægisif í öðrum tilgangi en soldáninn ákvæði.

Innan stundar frá því að ákvörðun ríkisráðsins birtist í Stjórnartíðindum Tyrklands ákvað Erdogan að færa yfirstjórn á Ægisif sem hingað til hefur verið hjá ráðuneyti menningar og ferðamála til ráðuneytis trúmála og opna bygginguna að nýju til bænahalds. Að kvöldi föstudags 10. júlí flutti forsetinn eldheitt sjónvarpsávarp til þjóðarinnar til stuðnings því að Ægisif yrði að nýju helgistaður múslima.

 

(Heimild Le Monde)

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …