
Rússar efna til flotaæfinga á heimshöfunum í janúar og febrúar. Fara þær fram á norðurslóðum, Norðaustur-Atlantshafi, Miðjarðarhafi, Kyrrahafi og Okhotshafi við Austur-Síberíu.
Gildi æfinganna er metið í ljósi þess að Rússar hafa efnt til umsáturs um Úkraínu með á annað hundrað þúsund hermönnum og þungavopnum.
Allir rússnesku herflotarnir, Norðurflotinn, Eystrasaltsflotinn, Svartahafsflotinn og Kyrrahafsflotinn, eiga skip í æfingunum sem Nikolaj Jevmenov, aðmíráll og æðsti yfirmaður rússneska flotans stjórnar.
Þriðjudaginn 25. janúar var fylgst með skipum úr Norðurflotanum sem sigldu suður með strönd Noregs. Segir norski herinn að áhöfn um borð í P-3C Orion eftirlitsflugvél hafi á venjulegu eftirlitsflugi frá flugvellinum á Andøya séð fimm rússnesk herskip á ferð.
Á norsku vefsíðunni High North News er fimmtudaginn 27. janúar rætt við Inu Holst-Pedersen Kvam, sérfræðing við Forsvarets høgskole, Sjøkrigsskolen í Bergen, það er við sjóhernaðardeild háskóla norska hersins, Hún segir forvitnilegast við æfingar Norðurflotans hvort þær auðveldi að greina hvert stefni af hálfu Rússa í deilunni vegna Úkraínu.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur tilkynnt að skip úr Norðurflotanum, Eystrasaltsflotanum og Kyrrahafsflotanum verði við sameiginlegar æfingar á Miðjarðarhafi.
Ine Holst-Pedersen Kvam segir að nú séu öflug rússnesk landgönguskip á leið til Miðjarðarhafs. Helmingur þeirra sé úr Norðurflotanum. Um borð í öllum þeirra virðist vera fjöldi hermanna, búnaður og vopn. Hugsanlega eigi að nota skipin til landgöngu í Úkraínu á strönd Svartahafs.
Norski sérfræðingurinn segir að fróðlegt verði að sjá hvernig Rússir hagi varðstöðu um langdræga kjarnorkukafbáta sína á norðurslóðum við þessar aðstæður.
Hún telur að æfingar skipa Norðurflotans í Barentshafi verði á boðuðum æfingasvæðum og á þeim stöðum þar sem venjulega sé æft, það er á vesturhluta Barentshafs, undan Fiskerhalvøya í Noregi, og í austri við Novaja Semlja.
Þegar litið er á rússnesku flotalæfinguna á heimshöfunum í heild taka rúmlega 140 herskip og stuðningsskip þátt í henni, rúmlega 60 flugvélar og um 1.000 vígtól ásamt um 10.000 manns, segir rússneska varnarmálaráðuneytið.
Kvam segir að miðað við upplýsingar um hvernig æfingu Norðurflotans verði háttað megi vænta að megináhersla verði lögð á loftvarnir og varnir gegn kafbátum. Að þessu leyti komi í raun ekkert á óvart.
Það sé hins vegar nýmæli núna að Norðurflotanum virðist ætlað það hlutverk að magna stríðsótta. Óvíst sé hve langt verði gengið í því efni en lokahnykkurinn gæti falist í að láta glitta í kjarnorkuheraflann og vekja þannig mikið uppnám í vestri vegna óvissu um hvað í raun vaki fyrir Rússum.
Í Norðurflotanum, stærsta rússneska flotanum, eru flestir langdrægir kjarnorkukafbátar Rússa. Þeir eru bakjarl hernaðarstefnu þeirra, gripið yrði til gjöreyðingarvopnanna í „annarri umferð“ átaka – langdrægu kjarnorkuvopn Rússa eru á Kólaskaga austan við norsku landamærin og við Hvítahaf í norðvestur hluta Rússlands.
Að mati Kvam er veruleg óvissa um á hvaða stigi Rússar gripu til kjarnorkuvopna, færi allt á versta veg. Rússar kynnu að telja það styrkja stöðu sína í viðræðum við vestrið að láta glitta í þessi vopn.
„Árásir rússneskra sprengjuvéla á Franz Joseph Land í fyrri viku, daginn fyrir fund bandaríska utanríkisráðherrans, Antonys Blinkens, og rússneska utanríkisráðherrans, Sergeijs Lavrovs, og eftir að Bretar og Bandaríkjamenn létu Úkraínumönnum í té vopn, komu því ekki á óvart og féllu alveg að stigmögnunarkúrvunni,“ segir Ine Holst-Pedersen Kvam og bætir við:
„Inntak, eðli og tilgangur gerir sérhvert skref klæðskerasniðið til að gera næsta skref áhrifameira sé þörf á stigmögnun. Þótt ég telji þetta auðvelda mjög að spá fyrir um skref Rússa og þess vegna einnig að bregðast við þeim á árangursríkari hátt af okkar hálfu er lítil ástæða til almennrar bjartsýni af þessum sökum þegar Kremlverjar efna til sýningar á svo augljósum styrk og vilja til að fylgja hótunum eftir með aðgerðum.“