
Bandarísk landgönguliðssveit skipuð 800 mönnum úr viðbragðsliði bandarískra landgönguliða (e. U.S. Marine Expeditionary Unit) eru nú í Tromsø í Norður-Noregi. Landgönguliðarnir eru að hefja æfingar með norskum hersveitum.
Af því hve NATO hefur efnt til margra æfinga á norðurslóðum undanfarið má ráða hve Norður-Atlantshafið, Ísland og Norður-Noregur skipta miklu þegar stríð er háð í Evrópu.
Um sömu mundir og æfingunni Norður-Víkingi undir forystu sjötta flota Bandaríkjanna lýkur hér hefst þessi æfing í Norður-Noregi en stærsta herskipið sem var á ferð hér við land heldur í átt að Norður-Noregi til stuðnings við 22. viðbragðslið bandarísku landgönguliðanna. Í heraflanum í Norður-Noregi eru landgönguskip, flugvélar, þyrlur, fjölhæf árásarskip og flutninga og stjórnsveitir.
Heræfingin í Noregi hefst eftir páska.
Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu mánudaginn 11. apríl um æfinguna Norður-Víking sagði:
„Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 náði hápunkti í dag með æfingu landgönguliða í Hvalfirði. Fjölmenni fylgdist með æfingunni, þar á meðal fulltrúar ríkisstjórnarinnar og yfirmenn í herafla Bandaríkjanna.
Tvær þyrlur og tveir svifnökkvar af bandaríska herskipinu USS Arlington fluttu bandaríska og breska landgönguliða í land við Miðsand í Hvalfirði. Landgönguliðarnir æfðu sig í að tryggja fyrirfram skilgreint svæði og koma á land ökutækjum og ýmsum búnaði. Öllum markmiðum æfingarinnar var náð og þótti hún heppnast mjög vel.
Stjórnendur æfingarinnar, þeir Eugene Black aðmíráll 6. flota bandaríska sjóhersins og undirhershöfðinginn Francis L. Donovan lýstu fyrir viðstöddum markmiðum og framkvæmd æfingarinnar. Auk þeirra var Daniel W. Dwyer, aðmíráll 2. flota bandaríska sjóhersins viðstaddur.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fylgdist með æfingunni í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra en hún er stödd erlendis. Jafnframt voru viðstaddir alþingsmenn, embættismenn og fulltrúar erlendra ríkja á Íslandi, auk fjölmiðla.
Utanríkisráðuneytið, ásamt Landhelgisgæslu Íslands og embætti ríkislögreglustjóra hafa staðið að skipulagningu Norður-Víkings 2022 undanfarna mánuði í samvinnu við 6. flota bandaríska sjóhersins. Æfingin hófst 2. apríl og hefur farið að mestu fram á hafinu í kringum Íslands og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir sjóleiða umhverfis Ísland og mikilvægra öryggisinnviða en einnig leit og björgun á sjó og landi og hefur Landhelgisgæslan tekið virkan þátt í þeim hlutum æfingarinnar. Æfingunni lýkur 14. apríl.“