Home / Fréttir / Æðsti flotaforingi Bandaríkjanna fundar í Kaupmannahöfn

Æðsti flotaforingi Bandaríkjanna fundar í Kaupmannahöfn

 

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana, og Mike Gilday, æðsti flotaforingi Bandaríkjanna.

Bandaríski flotaforinginn Mike Gilday, Chief of Naval Operations – æðsti yfirmaður bandaríska flotans – heimsótti Kaupmannahöfn í fyrri viku og ræddi meðal annars við Trine Bramsen varnarmálaráðherra og yfirmann danska flotans, Torben Mikkelsen um samvinnu Bandaríkjamanna og Dana á norðurslóðum (Arktis).

Gilday hitti einnig blaðamenn og er hér vísað til þess sem fram kom á vefsíðunni altinget.dk eftir fundinn. Þar tók flotaforinginn af skarið um að bandaríski flotinn mundi auka viðveru sína í norðri.

Hann lýsti áformum um nána samvinnu af hálfu Bandaríkjamanna við yfirvöld á Grænlandi og Kaupmannahöfn. Markmiðið væri að tryggja siglingafrelsi á norðurslóðum. Benti flotaforinginn á að undanfarna 18 mánuði hefðu Bandaríkjamenn sent skip 20 sinnum inn á norðurslóðir eftir að hafa beint athygli sinni til annarrar áttar árum saman. Norðlægu hafsvæðin hefðu mikið strategískt gildi og bandaríski flotinn vildi geta sent skip sín þangað til hindrunarlausra siglinga. Verkefni hans væri að vernda opið og frjálst svæði á þessum slóðum og tryggja að þar gætu menn fullir öryggis stundað siglingar og viðskipti.

Mike Gilday fagnaði því að danski flotinn fengi ný eftirlitsskip til starfa á norðurslóðum í kringum 2030 í stað skipanna af Thetis-gerð sem komin eru til ára sinna. Það væri mikil þörf fyrir skip til kafbátaleitar, þau yrðu áfram meðal lykilþátta varna á hafinu.

Í samtalinu við Gilday var vísað til utanríkisráðherrafundar Norðurskautsráðsins hér í Reykjavík 20. maí og minnt á að allir ráðherrarnir hefðu lýst vilja til að norðurslóðir yrðu áfram lágspennusvæði í hernaðarlegu tilliti. Bandaríski flotaforinginn hafði ekki neinar áhyggjur af því að fjölgun bandarískra herskipa á þessum slóðum raskaði þessum áformum um lágspennu.

Mike Gilday sagði:

„Menn þurfa ekki að sýna hug sinn á ögrandi hátt. Norðurhöf eru öllum til gagns. Og með því að fara með friði í Norður-Íshafi viljum við tryggja að það sé öruggt fyrir alla. Að hafið sé frjálst og opið, hvort sem er vegna viðskipta eða skemmtunar. Við höfum engin áform um að ögra nokkrum. Það hefði öfug áhrif. Við ætlum að gera öllum ljóst hvers vegna við leggjum leið okkar þangað og eyða öllum vafa sem sækir að einhverjum um að fyrir okkur vaki að verða til vandræða.“

Andreas Krog, ritstjóri altinget.dk, minnir á að árið 2019 hafi Rússar tilkynnt að ætluðu herskip annarra landa Norðurleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs ættu stjórnendur þeirra að biðja um leyfi. Margir mótmæltu þar á meðal Bandaríkjamenn, tilkynningin stangaðist á við grunnréttinn til frjálsra siglinga hvar sem er á jarðarkringlunni.

Bandaríska flotastjórnin hefur ekki enn sent herskip Norðurleiðina frá Evrópu til Asíu eða öfugt. Gilday sagði það stafaði ekki af ótta við ögra Rússum. Þetta snerist um að hafa tiltækt rétt skip á réttum tíma.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …