Home / Fréttir / Aðstaða á Íslandi fær nýtt gildi með heimsókn B-2-þotnanna

Aðstaða á Íslandi fær nýtt gildi með heimsókn B-2-þotnanna

Torséðar B-2 Spirit þotur á Keflavíkurflugvelli

Bandaríski flugherinn segir að fyrsta dvöl torséðu B-2 sprengjuþotnanna hér á landi frá 23. ágúst til 11. september sýni að aðstaðan á Keflavíkurflugvelli hafi nýtt strategískt gildi við framkvæmd hernaðarlegra verkefna almennt á norðurslóðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu flughersins mánudaginn 20. september 2021 sem sagt var frá í blaði bandaríska hersins Stars and Stripes þriðjudaginn 21. september. Þar segir að Keflavíkurflugvöllur þjóni sem nýr stoðflugvöllur reynist nauðsynlegt að senda sveit sprengjuþotna með skömmum fyrirvara til verkefna í Evrópu.

Í frétt blaðsins er rifjað upp að árið 2019 hafi B-2 vél lent til eldsneytistöku á Keflavíkurflugvelli en „þetta er í fyrsta sinn sem B-2 hefur haft samfellda viðveru á Íslandi og starfað þaðan“ segir Matthew Howard ofursti, yfirmaður 110th Expeditionary Bomb Squadron.

Blaðið segir að Bandaríkjaher hafi kostað til milljónum dollara í því skyni að bæta aðstöðuna í Keflavík. Hún hafi skipt miklu fyrir herafla NATO í kalda stríðinu en minna máli eftir lok þess. Nú hafi endurvakin hernaðarleg umsvif Rússa og tilburðir þeirra orðið til þess að Bandaríkjastjórn og NATO beini meiri athygli að Keflavík með fjölgun heimsókna orrustuþotna og kafbátaleitarvéla.

Á árinu 2020 hafi Bandaríkjaher ákveðið að verja 38 milljónum dollara (um 5 milljörðum ísl. kr.) til endurbóta á Keflavíkurflugvelli.

Howard segir að með Ísland inni í myndinni fyrir B-2-vélarnar sé bandaríska flughernum kleift að láta að sér kveða á hættustund hvar sem er á jarðarkringlunni. Þá hafi sérstakt gildi fyrir samstöðuna með bandamönnum Bandaríkjanna og samstarfsþjóðum að efnt sé til sameiginlegra æfinga. Það stuðli að öryggi og stöðugleika um heim allan.

Í síðustu ferð sinni til Evrópu var stofnað til æfinga B-2-áhafnanna með breskum flugmönnum í Eurofighter Typhoons-orrustuþotum, bandarískum flugmönnum F-15 Eagles- orrustuþotum og norskum flugmönnum í F-35-orrustuþotum.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …