Danir ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu fimmtudaginn 3. desember um það að hve miklu leyti þeir eiga að innleiða 22 ESB-gerða, þar á meðal tilskipun um Europol, Evrópulögregluna, sem nú starfar á grundvelli milliríkjasamnings en ætlunin er að verði ESB-stofnun árið 2017. Rökræður vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar snúast nú helst um aðild Dana að samstarfinu undir merkjum Europol.
Danski þjóðarflokkurinn (DF) sem vill að kjósendur segi nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni kynnti laugardaginn 28. nóvember tillögur sem hann segir að tryggi Dönum aðild að Europol þótt þeir segi nei í atkvæðagreiðslunni. Telur DF að unnt verði að tryggja Dönum sambærilega aðild að Europol og Bretar og Írar hafa. Þeir eru ekki aðilar að Schengen-samstarfinu en taka samt þátt í lögreglusamstarfinu undir merkjum Europol.
Í laugardagsútgáfu Jyllands-Posten segja margir sérfræðingar að tillaga DF sé óraunhæf og hugveitan Tænketanken Europa, sem er hlynnt ESB, segir að ekki sé unnt að taka tillöguna alvarlega.
Sérfræðingar segja að tillaga DF verði ekki framkvæmd nema Lissabon-sáttmálanum sé breytt og það sé borin von að það verði gert. Minnt er á að ESB hafi hafnað að hrófla við sáttmálanum til að koma til móts við óskir Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, hangi þó ESB-aðild Breta á spýtunni.
Sérfræðingar telja að hafni Danir innleiðingu ESB-gerðanna leiði það til þess að þeir fjarlægist ESB-samstarfið skref fyrir skref og einangrist á sífellt fleiri sviðum.
Jesper Kongstad, blaðamaður Jyllands-Posten, segir að Europol-samstarfið sé ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um hinn 22 ára gamla fyrirvara Dana á ESB-aðild þeirra. Sé þessi fyrirvari í gildi við breytingar á Europol verði Danir að segja skilið við samstarfið.
Europol kom til sögunnar árið 1998 og hefur aðsetur í Haag. Danir hafa verið aðilar frá upphafi. Innan Europol skiptast aðildarríkin á upplýsingum til að sporna m. a. gegn mansali. fíkniefnasölu, barnaklámi, hryðjuverkum og netglæpum. Innan Europol er einnig unnið að greiningu og hættumati og þar geta menn einnig lagt aðildarlöndunum lið við rannsóknir mála en ekki er um eiginlegt lögreglulið að ræða og Europol-menn geta ekki handtekið fólk.
Árið 2014 leitaði danska lögreglan 71.481 sinnum eftir upplýsingum í gagnagrunni Europol (EIS), það er 195 sinnum dag hvern. Segi Danir skilið við samstarfið hefur lögregla þeirra ekki lengur aðgang að þessum upplýsingum.