Home / Fréttir / Aðild Svía að NATO loks komin í höfn

Aðild Svía að NATO loks komin í höfn

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti heilsar Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, að viðstöddum Jens Stoltenberg, framvæmdastjóra NATO.

Tyrkneska þingið samþykkti þriðjudaginn 23. janúar aðild Svíþjóðar að NATO og Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti miðvikudaginn 24. janúar að ungverska þingið myndi samþykkja NATO-aðild Svíþjóðar við fyrsta tækifæri, en þingmenn eru enn í jólaleyfi í Ungverjalandi.

Nú eru rúmlega 18 mánuðir frá því að Svíar og Finnar sóttu formlega um aðild að NATO. Finnland varð 31. NATO-ríkið 4. apríl í fyrra og nú sér loks fyrir að bið Svía sé að ljúka.

Það hefur aldrei verið skýrt til hlítar hvers vegna Tyrklandsforseti og forsætisráðherra Ungverjalands ákváðu að taka aðild Svía að NATO í þessa gíslingu.

Enginn efaðist um að Svíþjóð yrði NATO-ríki eftir að hafa verið tvær aldir án aðildar að bandalagi um her- eða varnarmál með nokkru ríki.

Bandaríkjastjórn hefur stutt NATO-aðild Svía og Finna frá fyrsta degi og í desember 2023 samdi hvort ríki um sig um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin.

Því hefur verið hreyft að annað hangi á spýtunni hjá Erdogan Tyrklandsforseta og Orbán með andstöðu sinni við Svía en snýr að Svíum sjálfum. Þeir hafi orðið leiksoppar í hagsmunagæslu þessara tveggja valdboðsstjórnmálamanna sem grípi hvert tækifæri til að skara eld að eigin köku fyrir utan að bæði Erdogan og Orbán hafa leikið einleik gagnvart Vladimir Pútil fyrir og eftir innrás hans í Úkraínu.

Peter Suppli Benson sem skrifar um norræn málefni í danska blaðið Berlingske spyr miðvikudaginn 24. janúar hvort málið snúist um skriðdreka eða orrustuþotur.

Hann segir að í apríl í fyrra hafi Bandaríkjastjórn skyndilega samþykkt að selja nýja tölvubúnað í rúmlega 200 gamlar tyrkneskar F-16 orrustuþotur. Sérfræðingar hafi talið þetta til marks um að nú ætti að gleðja Erdogan sem hafði snúið upp á sig vegna NATO-aðildar Svía.

Opinberlega sagðist Erdogan ekki samþykkja aðildina nema Svíar féllust á ýmsar kröfur hans. Þeir yrðu að banna mótmæli gegn tyrkneskum stjórnarháttum og koma í veg fyrir að mótmælendur hengdu brúður í gervi Erdogans á sænska ljósastaura. Hann lagði einnig fram lista með nöfnum Kúrda sem hann vildi fá framselda.

Allt var þetta í raun sett á svið til að ná fram kröfum á hendur Bandaríkjaforseta og stjórn hans segir Benson. Tyrkjum hafi fyrir mörgum árum verið bönnuð þátttaka í samstarfsverkefni um þróun og kaup á bandarískum orrustuþotum af gerðinni F-35.

Þetta gerðist eftir að Tyrkir ákváðu að kaupa S-400-loftvarnaflugskeytakerfi af Rússum. Þá setti Bandaríkjastjórn vopnasölubann á þá. Erdogan sá NATO-aðildarumsókn Svía sem lykil að því að breyta afstöðu Bandaríkjastjórnar og hann fengi að kaupa bandarísk vopn að nýju.

Með því að leyfa Tyrkjum að kaupa nýja hugbúnaðinn í gömlu F-16-þoturnar opnuðu Bandaríkjamenn glufu enda segðu Tyrkir já við Svíum. Gefið var til kynna að við aðild Svía fengju Tyrkir að kaupa glænýjar F-16-þotur í Bandaríkjunum.

Öðru máli gegnir um Orbán. Hann þarfnast í raun ekki neinna nýrra vopna.

Hjá honum snýst þetta frekar um að tekið sé tillit til hans segir Benson og honum sé ekki ýtt til hliðar, hvorki innan ESB né NATO, á sama tíma og augljósara verður að Orbán er besti vinur Valdimirs Pútins í Evrópu.

Fáir töldu að Viktor Orbán hefði styrk til að standa einn gegn aðild Svía að NATO. Hann varð líka fljótur að segja já eftir að tyrkneska þingið samþykkti aðildina fyrir sitt leyti.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …