
Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti gagnrýndi Rússa fyrir „hryðjuverk“ á aðfangadag, laugardaginn 24. desember, þegar sprengjum rigndi yfir laugardagsmarkað í miðborg Kherson, sjö almennir borgarar týndu lífi og 20 særðust.
Zelenskíj sagði á síðu sinni á samfélagsmiðlinum Telegram að herinn hefði enga aðstöðu í hverfi Kherson sem varð fyrir árásinni. Þá sagði hann:
„Á samfélagsmiðlum verður örugglega sagt að þetta sé „viðkvæmt efni“ [myndskeið sem sýna líkamsleifar á götum, logandi bíla og hrunin hús]. Þetta er ekkert „viðkvæmt efni“ heldur lífið eins og það er í Úkraínu og fyrir Úkraínumenn.“
Hann sagði morðárásirnar gerðar „til að hræða og til skemmtunar“.
Þennan dag voru 10 mánuðir liðnir frá því að Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu með skipun um að landið allt yrði hernumið.
Fréttamenn AFP fréttastofunnar voru vitni að því þegar sprengjum rigndi yfir borgina og sáu mannfall á götum úti.
Rússar yfirgáfu Kherson í nóvember en geta enn valdið þar tjóni með vopnum sínum og drónum sem skotið er úr fjarlægð.
Rússneskar sprengjur urðu tveimur að aldurtila í Kherson 15. desember og var annar þeirra starfsmaður Rauða krossins, þá rufu þeir allar raflínur til suðurhluta borgarinnar.