Home / Fréttir / Að loknum aðalfundi

Að loknum aðalfundi

Aðalfundur Varðbergs var haldinn þann 27. nóvember 2014 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns. Björn Bjarnason, fv. Ráðherra, var endurkjörinn formaður en auk hans voru kjörin í stjórn Árni Gunnarsson, fyrverandi alþingismaður, Gustav Pétursson doktorsnemi, Kjartan Gunnarsson lögfræðingur, Margrét Cela, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir, Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur og Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur.

Hér á eftir fer skýrsla formanns sem flutt var á fundinum auk þess sem sjá má yfirlit yfir þá fundi sem haldnir hafa verið á vegum Varðbergs.

Skýrsla formanns:

Þegar Varðberg var stofnað sem samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál  fimmtudaginn 9. desember 2010 runnu saman tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg.  Ber að halda aðalfund félagsins á tveggja ára fresti og er þetta því annar aðalfundur þess en hinn fyrsti var haldinn hér á þessum stað hinn 22. nóvember 2012.

Tilgangur Varðbergs er:
•    Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.
•    Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.
•    Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.
•    Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:
•    Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.
•    Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.
•    Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association.
•    Með útgáfustarfi.

Á aðalfundinum 2012 voru kosin í stjórn:
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður.
Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra.
Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður.
Kjartan Gunnarsson lögfræðingur.
Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum, formaður NEXUS, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis- og varnarmál.
Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.
Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur.

Stjórnin skipti með sér verkum og hefur Gísli Freyr Valdórsson verið ritari hennar og Tryggvi Hjaltason gjaldkeri. Félagið ræður hvorki yfir starfsmanni né skrifstofu. Stjórnarfundum þar sem allir koma saman á einn stað hefur fækkað og í stað þess eiga stjórnarmenn samskipti á netinu.

Með vefsíðu sem vistuð er hjá Nethönnun og póstlista er haldið sambandi við félagsmenn og öll reikningsfærsla félagsins er á netinu í samvinnu við Landsbanka Íslands.

Á þennan hátt hefur verið unnt að halda starfsemi félagsins uppi í fjögur ár og móta því fastan starfsramma sem miðast við að halda fundi undir nafni félagsins eins eða í samvinnu við aðra. Nýtir félagið þennan sal hér í Þjóðminjasafni þegar það sjálft hefur frumkvæði að fundum.

Starfsemi félagsins er í föstum skorðum, annars vegar snýst hún um að efna til opinberra funda og hins vegar aðild að Atlantic Treaty Association, ATA.

Að því er fyrri þáttinn varðar efndi Varðberg til eða var aðili að 11 fundum á því starfstímabili sem nú er að líða. Er það einum fleiri fundur en á fyrsta tveggja ára starfstímabili félagsins. Hér skulu þessir fundir ekki tíundaðir en frá þeim er skýrt á vefsíðu félagsins vefsugerc33.sg-host.com.

Samstarfsaðilar hafa verið Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, og Nexus, Rannsóknarvettvangur á sviði öryggis- og varnarmála auk utanríkisráðuneytisins. Vil ég þakka fulltrúum þessara aðila fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Fundir hafa snúist um voðaverk gegn þjóðaröryggi, almannavarnir í nútíð og framtíð, rannsóknarheimildir lögreglu, bandalag Stalíns og Hitlers, örlög fórnarlamba kommúnismans, nútíð og framtíð Atlantshafsbandalagsins, tengsl Íslands og NATO árið 2013, samstarf Finna og Svía við NATO, Landhelgisgæslu Íslands og varnartengd verkefni, NATO og nýjar hættur og tölvuöryggi.

Fjöldi funda og ráðstefna um alþjóðamál er mikill hér á landi. Frá því að Varðberg hélt aðalfund sinn síðast hefur til dæmis tvisvar sinnum verið boðað til hringborðs norðursins í Hörpu, það er Artic Circle ráðstefnunnar með þátttöku á annað þúsund manns frá öllum heimshornum. Þar að auki hefur verið efnt til fjölda funda á vegum háskólastofnana um utanríkis- og öryggismál.

Þrátt fyrir öll þessi umsvif er þörf fyrir félag á borð við Varðberg þar sem rætt er um viðfangsefnin frá íslenskum sjónarhóli eða með íslenska hagsmuni í huga. Er það verkefni stjórnar að draga athygli að þeim þáttum sem hún telur nauðsynlegt að íhugaðir séu hverju sinni. Vil ég þakka öllum fyrirlesurum sem hafa gert okkur kleift að gera þetta undanfarin tvö ár.

Þátttaka Varðbergs í störfum ATA hefur ekki verið mikil bæði vegna kostnaðar við hana og einnig hins að samtökin hafa munað sinn fífil fegri. Virðist nú barist fyrir lífi þeirra og hlýtur stjórn og skrifstofa samtakanna að taka þeim tak sé vilji til að þau starfi áfram í núverandi mynd.

Ég hef þessa skýrslu ekki lengri en vil þakka meðstjórnarmönnum  mínum gott samstarf og einnig félagsmönnum öllum.

Listi yfir fundi frá 22. nóvember 2012 til 27. nóvember 2014:

1. Þriðjudagur 4. desember 2012 kl. 12.00, stofa 101 Odda, húsi Háskóla Íslands.
Voðaverk gegn þjóðaröryggi
22.7.11 – hvað gerðist hvað höfum við lært?
Ræðumenn: Sture Martin Vang, lögregluforingi frá Noregi, og Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

2. Fimmtudagur 31. janúar 2013 kl. 12.00, Þjóðminjasafn.
Almannavarnir í nútíð, nýjar áskoranir og öryggi almennings.
Ræðumaður: Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

3. Fimmtudagur 14. mars 2013 kl. 12.00, Þjóðminjasafn.
Rannsóknarheimildir lögreglu
Ræðumaður: Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

4. Föstudagur 23. ágúst 2013 í samvinnu við RNH í Þjóðarbókhlöðu.
Stalín í fyrstu bandamaður Hitlers
Mynda- og bókasýning á minningardegi um fórnarlömb alræðis í Evrópu, nasisma og kommúnisma. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor valdi myndir og bækur.
Fyrirlesarar: Dr. Matt Nutt frá Eistlandi og dr. Pawel Ukielski frá Póllandi.

5. Mánudagur 16. september 2013 kl. 17.00 í samvinnu við RNH, Þjóðarbókhlöðu.
Minningar og saga alræðis frá Slóvakíu
Ræðumaður: Dr. Andreja Valc Zver frá Slóvakíu.

6. Fimmtudagur 19, september 2013 kl. 10.00 í samvinnu við Alþjóðamálastofnun HÍ, Norræna húsinu.
Nútíð og framtíð Atlantshafsbandalagsins: Aðgerðir og verkefni
Ræðumaður: Knud Bartels, hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO, fyrrv. æðsti yfirmaður danska hersins.

7. Föstudagur 27. september 2013  klukkan 15.30, málþing í samvinnu við NEXUS, Rannsóknarvettvang á sviði öryggis- og varnarmála og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands,  Þjóðminjasafni.
Ísland í NATO og NATO á Íslandi – tengsl Íslands og NATO árið 2013
Alyson Bailes, aðjúknt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Françoise Perret, starfsmenn NATO í Brussel, almennt um varnarstefnu NATO og stöðu Íslands innan hennar og tóku síðan þátt í pallborðsumræðum undir stjórn Björns Bjarnasonar, formanns Varðbergs.
Martin Sövang um Landhelgisgæslu Íslands og Jón B. Guðnason um íslenska loftrýmiseftirlitið með tilliti til NATO-samstarfsins. Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, um NATO-mannvirki á Íslandi og eignarhald á þeim. Þeir tóku síðan þátt í pallborðsumræðum undir stjórn Gustavs Péturssonar, doktorsnema og gjaldkera NEXUS.

8. Þriðjudagur 18. febrúar 2014 málþing klukkan 17.00 í samvinnu við Alþjóðamálastofnun HÍ og utanríkisráðuneytið, Norræna húsinu.
Loftrýmisreftirlit og gæsla frá Íslandi – þátttaka Finna og Svía
Ræðumenn: Arto Räty, ráðuneytisstjóri finnska varnarmálaráðuneytisins, Veronika Wand-Danielsson, sendiherra Svíþjóðar hjá NATO, Morten-Haga Lunde, hershöfðingi, yfirmaður stjórnstöðvar norska heraflans, og Robert G. Bell, varnarmálaráðgjafi sendiherra Bandaríkjanna hjá NATO.

9. Fimmtudagur 3. apríl 2014 kl. 12.00,  Þjóðminjasafni.
Landhelgisgæslan og varnartengd verkefni
Ræðumenn: Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, og Jón Björgvin Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslu Íslands.

10. Fimmtudagur 16. október 2014 kl. 12.00, Þjóðminjasafni.
NATO og nýjar hættur
Ræðumaður: Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis.

11. Fimmtudagur 27. nóvember kl. 12, Þjóðminjasafni.
Tölvuöryggi á Íslandi
Ræðumenn: Hákon L. Åkerlund og Ægir Þórðarsson, öryggissérfræðingar Landsbankans.
Að loknum fundi um tölvöryggi kl. 13.00:
Annar aðalfundur Varðbergs.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …