Home / Fréttir / Abramovitsj hafnað í Sviss til að gæta orðspors landsins

Abramovitsj hafnað í Sviss til að gæta orðspors landsins

Roman Abramovitsj.
Roman Abramovitsj.

Rússneski milljarðamæringurinn Roman Abramovitsj vildi fá að setjast að í Sviss en afturkallaði beiðni sína þegar við blasti að henni yrði hafnað sagði embættismaður svissneskrar útlendingastofu miðvikudaginn 26. september.

Það var blaðið Tribune de Genéve (TdG) sem fyrst flutti fréttir af málinu og þar kom fram að svissneska sambands-lögreglan hefði lagst gegn komu Abramovitjs af öryggisástæðum.

Við birtingu fréttarinnar valdi blaðið þá óvenjulegu leið að prenta hana bæði á frönsku og ensku til að árétta hve kunnur Abramovitsj er um heim allan. Hann er meðal annars frægur í heimi knattspyrnunnar sem eigandi félagsins Chelsea í London frá árinu 2003. Hann á mikla húseign í Kesington Gardens í bresku höfuðborginni.

Abramovitsj óskaði eftir að fá rétt til búsetu í Valais-kantónu þar sem meðal annars er að finna hágæða skíðasvæðið sem kennt er við Verbier. Jacques de Lavallaz, forstjóri útlendingastofunnar í kantónunni, sagði að Rússinn hefði fengið grænt ljós frá Valais en sambands-yfirvöld í Sviss eiga síðasta orðið í útlendingamálum.

„Útlendingastofnunin ætlaði að taka neikvæða ákvörðun en fulltrúar Abramovitsj drógu umsókn skjólstæðings síns til baka áður en ákvörðunin var birt,“ sagði de Lavallaz í tölvubréfi til AFP-fréttastofunnar. Umsóknin var dregin til baka á árinu 2017.

De Lavallaz sagði ákvörðun sambands-yfirvalda reista á athugunum svissnesku sambandslögreglunnar án þess að gera nánari grein fyrir niðurstöðum hennar. Hann lagði jafnframt áherslu á afturköllun umsóknarinnar áður en málið hlaut endanlega afgreiðslu.

TdG segir að umsóknin frá Abramovitsj til yfirvalda í Verbier hafi borist á árinu 2016.

Blaðið segir lögregluna hafa talið að milljarðamæringurinn lægi „undir grun um peningaþvætti og um tengsl við glæpasamtök“. Dvöl hans í landinu gæti „skaðað orðspor Sviss og jafnvel ógnað almannaöryggi“.

Í blaðinu birtist einnig yfirlýsing frá manni sem sagður er lögfræðingur Abramovitsj. Þar eru svissneskir embættismenn gagnrýndir fyrir að segja frá einkamálum hans.

„Við höfum farið þess á leit við svissnesku sambands-lögregluna að hún leiðrétti staðreyndavillur og við munum kæra til lögreglu þá nafnlausu einstaklinga sem bera ábyrgð á dreifingu þessara trúnaðarupplýsinga,“ sagði Daniel Glasl lögfræðingur í yfirlýsingu.

„Allar tilgátur um að Abramovitsj tengist peningaþvætti eða sé í tengslum við glæpasamtök eru algjörlega úr laustu lofti gripnar,“ sagði einnig í yfirlýsingunni. Sakaskrá Abramaovitsj væri hrein.

TdG sagði að sambands-dómstóll Sviss hefði heimilað birtingu á fréttinni um rússneska milljarðamæringinn í fyrri viku eftir að blaðið hafði glímt í sjö mánuði við lögmenn Abramovitsj innan og utan réttarsalarins.

Abramovitsj fékk ríkisborgararétt í Ísrael í maí í ár eftir að bresk yfirvöld drógu að veita honum vegabréfsáritun. Hann hefur ekki sést í London undanfarna mánuði. Bloomberg-fréttastofan sagði að Chelsea væri til sölu en því hafna talsmenn rússneska auðmannsins.

Forbes segir að nettó auður Abramovitsj (51 árs) sé um 11,9 milljarðar dollara og hann sé 140. á lista yfir ríkustu einstaklinga í heiminum. Hann er hluthafi í stál- og námufyrirtækjunum Evraz og Norilsk Nickel. Árum saman hefur hann verið tíður gestur í Ísrael og lagt fé af mörkum í þágu Ísraela og samfélaga gyðinga í Rússlandi. Þegar hann flutti til Ísraels varð hann samstundis auðugasti maður landsins.

Í apríl 2018 fékk hann sérstaka viðurkenningu Samtaka gyðingasamfélaga í Rússlandi fyrir að hafa gefið meira en 500 milljónir dollara undanfarin 20 ár í þágu gyðinga í Ísrael og Rússlandi.

Í Ísrael er vitað að Abramovitsj hefur gefið 60 m dollara til Sheba-læknastöðvarinnar, þar á meðal til að koma á fót nýrri kjarnorku-læknastöð. Þar að auki hefur hann gefið 30 m dollara til að koma á fót nýsköpunarsetri á sviði nanotækni við Tel Aviv-háskóla.

 

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …