Home / Fréttir / Abbas á mjög undir högg að sækja meðal Palestínumanna

Abbas á mjög undir högg að sækja meðal Palestínumanna

Mahmud Abbas

Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum sætir vaxandi gagnrýni vegna stríðsaðgerða Ísraela gegn Hamas á Gazasvæðinu. Á ensku er stjórn Palestínumanna kölluð Palestinian Authority til að greina vald hennar á annan veg en sem hefðbundna ríkisstjórn, á íslensku má nota orðið staðaryfirvald eða heimastjórn. Vesturbakkinn er aðsetur Palestínumanna við Jórdaná.

Abbas er 88 ára gamall og margir líta svo á að hann geri sér enga grein fyrir örvæntingu Palestínumanna vegna harkalegra viðbragða Ísraela við hryðjuverkaárás Hamas 7. október á byggðir Ísraela í nágrenni Gazasvæðisins.

Í mótmælunum sem urðu í liðinni viku eftir að látið var í veðri vaka að Ísraelar hefðu ráðist á sjúkrahús á Gaza fóru hundruð Palestínumanna á Vesturbakkanum út á götur og hrópuðu: „Abbas, segðu af þér!“ áður en öryggissveitir komu á vettvang og dreifðu mótmælendum.

Abbas hefur verið í forystu heimastjórnarinnar í 18 ár. Hann hefur í raun lítið um málefni Vesturbakkans að segja og ekkert um það sem gerist á Gaza eftir að Hamas bolaði heimastjórninni þaðan með valdi árið 2007.

Út á við og í samtölum við fulltrúa annarra ríkja hefur Abbas haldið í fyrirheit í Oslóar-samningunum frá 1993 í von um að þau verði framkvæmd.

Á sínum tíma var litið á heimastjórnina sem fyrsta skrefið til sjálfstæðs Palestínuríkis en í meira en einn áratug hafa viðræður um leið að sjálfstæði ekki breytt neinu. Tveggja-ríkja-lausn er þó yfirlýst markmið til að tryggja Ísraelsríki friðsamlegan tilverurétt við hlið ríkis Palestínumanna.

Abbas hefur ekkert afl til að beita sér gegn hraðri fjölgun landnemabyggða Ísraela og hervaldi þeirra á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem en Ísraelar hafa innlimað borgarhlutann í ríki sitt. Þeir hernumdu bæði Vesturbakkann og Austur-Jerúsalem árið 1967 og brutu þannig upp landsvæði sem átti að vera samtengt í þágu Palestínumanna.

Spenna hefur jafnan einkennt samskipti Ísraela og Palestínumanna á þessum slóðum, hefur skorist í odda vegna fjölgunar landnemabyggða og einnig milli Ísraelshers og vopnaðra sveita Palestínumanna.

Ástandið hefur versnað stig af stigi síðan í desember 2022 þegar Benjamin Netanyahu myndaði stjórn í Ísrael sem er lengra til hægri en nokkur stjórn landsins áður.

Ubai Al-Aboudi, forstjóri Bisan Center for Research and Development, hugveitu í Ramallah, borg Palestínumanna á Vesturbakkanum, sagði við fréttaritara AFP-fréttastofunnar að Abbas hefði veðjað á alþjóðasamfélagið í þeirri trú að það mundi neyða Ísraela til að hverfa frá hernumdu svæðunum og færa Palestínumönnum eigið ríki.

Alþjóðasamfélagið hafi hins vegar sýnt að það lætur sig blóðbað meðal Palestínumanna og þjáningar þeirra litlu skipta. Almenningur sé þess vegna reiður.

Þrátt fyrir mannfall og harðræði á Gaza hefur Abbas staðið til hliðar við átökin. AFP segir að margir Palestínumenn hafi, án tillits til stjórnmálaskoðana sinna, lýst yfir stuðningi við Hamas á samfélagsmiðlum. Abbas vakti reiði þegar opinber fréttastofa Palestínu hafði eftir honum að „stefna og aðgerðir Hamas eru ekki á vegum palestínsku þjóðarinnar“. Yfirlýsingin var afturkölluð.

Hann sagði þetta daginn áður en fréttin barst um meinta flugskeytaárás Ísraela á Al-Ahli-sjúkrahúsið á Gaza. Ísraelar báru af sér sök og bentu á öfgamenn innan Gaza. Síðan hefur skýrst að Ísraelar gerðu ekki árásina og um var að ræða sprengingu á bílastæði sjúkrahússins. Háar tölur um mannfall eru sagðar úr lausu lofti gripnar.

Áður en til núverandi átaka kom á Gaza var Abbas mjög óvinsæll samhliða því sem stuðningur við friðsamlega lausn á deilum við Ísraela hefur dvínað.

Í september 2023 birti Palestinian Centre for Policy and Survey Research, palestínsk rannsóknamiðstöð, niðurstöðu könnunar sem sýndi að 78% Palestínumanna vildu að Abbas segði af sér.

Um 58% studdu „vopnuð átök“ til að binda enda á hernám Ísraela, 20% vildu semja um lausn og 24% vildu „friðsamlega andspyrnu“.

Xavier Guignard, stjórnmálafræðingur sem helgar sig palestínskum málefnum við Noria Resarch, rannsóknastofnun í París, segir að andstæðingar Abbas telji hann og heimastjórnina sífellt hallari undir stefnu Ísraela, annaðhvort vegna aðgerðaleysis eða samvinnu í öryggismálum. Abbas myndi ekkert gera vegna atburðanna á Gaza.

Hugh Lovatt, greinandi við hugveituna European Council on Foreign Relations (ECFR), segir að aukist harkan í afstöðu almennings í Palestínu og krafan um vopnaða andspyrnu vaxi líkur á að heimastjórn Palestínumanna verði ýtt til hliðar, breyti hún ekki um stefnu. Láti heimastjórnin undan þrýstingi frá stjórnum Bandaríkjanna og Ísraels um að herða gagnrýni sína á Hamas og vopnaðar sveitir á Vesturbakkanum minnki almennur stuðningur við hana enn frekar.

AFP ræddi við Omar Khatib sem tók þátt í mótmælum í Ramallah föstudaginn 20. október til stuðnings Palestínumönnum á Gaza. Hann gaf heimastjórninni þessa dapurlegu einkunn:

„Andspyrnan snýst gegn Ísrael á Gaza og við erum á móti heimastjórninni hér vegna þess að hún er ekki annað en verkfæri í höndum hernámsliðsins til að kúga okkur á Vesturbakkanum.“

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …